Helgarþrenna

Það var þrennt sem gerði þessa helgi að sérstaklega góðri helgi.

Á föstudagskvöldið fórum við í Menningarklúbbnum Jóhann-essi í Borgarleikhúsið að sjá Fló á skinni. Það reyndist hin besta skemmtun og kvöldið gott í alla staði, því auðvitað fylgdi þessu matarinntaka og létt grín í marga klukkutíma. Nafnið á klúbbnum var ákveðið þetta kvöld, þótti vel við hæfi að nefna hann í höfuðið á stofnandanum Jóhönnu. Ekkert okkar mundi þá, að aðalpersónur leikritsins heita Jóhannes og Jóhann S, en eftir að það kom í ljós var nafnið endanlega staðfest þó ritháttur þess sé enn ekki alveg ákveðinnSmile

Laugardagurinn var ljúfur. Ég var ein heima til hádegis (það gerist næstum aldrei ), þar sem bóndinn fór að smala, Ólöf Björk í fimleika og yngri börnin voru í næturpössun á Selfossi vegna leikhúsferðarinnar. Ég fór svo á Selfoss um hádegisbil til að sækja þau og dvaldi daglangt á æskustöðvum. Það er alltaf gott Wink. Hótel Mamma klikkaði ekki á veitingunum og svo var ég svo heppin að Brynja og Kári bróðurbörn mín voru þar í heimsókn líka ásamt móður sinni, svo við áttum öll gott spjall og samveru. Ljúft.

Í dag var svo nokkuð stór dagur í lífi fjölskyldunnar. Upphaf fermingarfræðslunnar í Þorlákskirkju var markað með guðsþjónustu sem við mæðgurnar sóttum. Fermingarbarnið tilvonandi hafði að vísu farið um morguninn með litlu systur í sunnudagaskólann svo það má segja að hún hafi tekið þetta með trompi frá upphafi! Reyndar hefur hún Ólöf Björk blessunin sinnt kirkjustarfi betur en flestir bæjarbúar þó eldri séu, því hún fylgdi mér í næstum hvern einasta sunnudagaskóla frá tveggja ára aldri og sló ekki slöku við fyrr en í hitteðfyrra. Henni líður vel í kirkjunni sinni og þótti gott að koma aftur í sunnudagaskólann. Mér líður líka alltaf vel í kirkjuna og þykir gott og gaman að fara í messu.  Ég hlakka til að fara með dótturinni í gegnum það skemmtilega ferli sem fermingarfræðslan og fermingin er.

Sem sagt fjölbreytt og skemmtileg helgi senn á enda runnin. Vona að vikan verði góð Whistling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband