Færsluflokkur: Bloggar
Það rann upp fyrir mér um helgina að ég ætti fermingarafmæli í dag, 19.mars. Það var á pálmasunnudag árið 1978 sem ég staðfesti skírnarheitið. Fínn dagur og allt í góðu. En aðeins skjátlaðist mér í fyrstu við útreikningana þegar einvher spurði hve langt væri síðan ég fermdist. Ég var snögg til, í ár er 07, fermingarárið endaði á 8...það hlutu að vera 19 ár síðan! En það er víst gott betur. Í dag á ég 29 ára fermingarafmæli. Ja hérna.
Bloggar | 19.3.2007 | 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
...svo úr verði gott lag er náðargáfa sem ekki er öllum gefin. Magnús Eiríksson, annað Mannakornið, er einn af þeim heppnu í þessu tilliti.
Var að koma af Mannakornstónleikum í Versölum. Makalaust skemmtilegt og fjölmenni. Pálmi enn syngjandi og sætur sem forðum. Magnús ekki eins sætur en fyndinn og flínkur á gítarinn, maður lifandi! Agnar Már og Ásgeir Óskarsson voru kornunum til fulltingis í kvöld ...og það spillti engu Mjög góð kvöldstund.
Það var reyndar líka gaman í gærkvöldi á kóratónleikunum. Söngfélagið, Söngsveit Hveragerðis og Jórukórinn slógu saman í konsert sem tókst svona ljómandi. Alltaf gaman að syngja með öðrum, fyrir aðra og hlusta á aðra kóra.
Sem sagt. Menningarlífið blómstar í Þorlákshöfn sem endranær.
Bloggar | 14.3.2007 | 23:01 (breytt kl. 23:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nenni ekki að blogga um áframhald á ælupestinni (við hjónin) . Mig langar hins vegar að deila með ykkur því, að ég hef nú síðustu daga og vikur lesið tvær góðar bækur (og fleiri ekki eins góðar).
Þetta er Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur (barnabarn Laxness) og hin Viltu vinna milljarð? eftir indverska rithöfundinn Vikas Swarup (sem er ekkert skyldur Laxness og er heldur ekki sá sami og skrifaði Flugdrekahlauparann- útbreiddur misskilningur).
Mjög ólíkar bækur en segja báðar mjög áhugaverðar sögur....finnst mér Ekki meira um það, þið verðið bara að kíkja í þær. En þær eru nú kannski einkum ætlaðar ,,realistum" eins og mér. Enginn ævintýrablær yfir þessum bókum.
Bloggar | 7.3.2007 | 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
...á enda runnin. Þó mér þyki mjög gaman að fara út og suður og skemmta mér, hitta fólk og hafa nóg fyrir stafni, elska ég helgar eins og þessa sem er að ljúka. Ekkert sérstakt lá fyrir og fjölskyldan meira og minna saman. Það er svo gaman. Heimsóttum Kollu vinkonu og hennar fjölskyldu í dag. Það gerist allt of sjaldan þó þau búi í næstu götu. Þau eru indæl heim að sækja og Auður Magnea féll fyrir Sigurbergi eins og allir krakkar. Hann hefði átt að verða leikskólakennari...eða eignast amk 10 börn!
Dúndurpizza í kvöldmatinn og allir tilbúnir í vikuna framundan, úthvíldir og afslappaðir.
Bloggar | 4.3.2007 | 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag fór starfsfólk Grunnskólans til Grindavíkur og skoðaði grunnskólann þar. Hér heima var það foreldrafélagið sem sá til þess að í skólann kom fólk úr bæjarlífinu og kynnti störf, áhugamál, félög og fyrirtæki. Þennan hátt höfum við haft á í mörg ár og gengið ákaflega vel. Þetta er góð tilbreyting fyrir alla.
Heimsóknin til Grindavíkur tókst vel. Afskaplega hlýtt viðmót í skólanum og margt áhugavert sem þar fer fram. Ég fékk þá tilfinningu að þarna væri iðkað gott skólastarf og kennarar og nemendur væru yfir höfuð glaðir. Það er aðalatriðið....ekki satt? Takk fyrir mig.
Svo var endað í Bláa lóninu og ljúffengum mat á veitingastað sem eitt sinn hét Hótel Jenný. Það nafn hefur sennilega ekki þótt eldast vel og heitir staðurinn nú Northern Lights Inn. Hvað finnst okkur um það????????
Bloggar | 2.3.2007 | 22:49 (breytt kl. 22:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í bljúgri bæn og þökk til þín.
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.
Í minningu séra Péturs Þórarinssonar í Laufási set ég hér inn þessa fallegu bæn sem hann samdi og allir þekkja. Þetta er eini sálmurinn sem ég reyni að kenna öllum nemendum mínum því boðskapurinn er svo skýr og einfaldur. Og ekki skemmir lagið fyrir.
Bloggar | 2.3.2007 | 16:57 (breytt kl. 22:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
hefur eitthvað verið um að vera hér á bæ.
Á mánudagskvöldið voru minningartónleikar um Svandísi litlu Þulu, en hún hefði einmitt átt afmæli þann dag. Tónleikarnir tókust vel, voru hressilegir og skemmtilegir en þó með fallegu yfirbragði. Séra Baldri tókst sem kynni að skapa óþvingaða og þægilega stemmningu og þar sem mikið var af börnum í salnum var auðvitað líflegt. Leikskólakórinn söng, Lúðrasveitin spilaði og svo komu fram þrjár hljómsveitir. Að lokum var lagið ÞULA flutt af höfundi og fylgdarliði. Hátíðlegt, fallegt og auðvitað sorglegt. Í tilefni af því að þau Jakob Unnar og Svandís Þula fæddust bæði í febrúar 2001 set ég hér inn mynd af þeim sem ég tók í afmælisveislunni hans þegar hann varð 5 ára í fyrra. Þau voru alltaf svo sæt saman.
Á þriðjudagskvöld var kóræfing og í gærkvöld fínn fyrirlestur á vegum foreldrafélaga leikskóla og grunnskóla. Þuríður Pétursdóttir sálfræðingur talaði þar um skapmikil börn.
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins var einnig kynnt í gærkvöld og í kvöld verður Kyrjukórinn með spilakvöld og Samfylkingarfélagið með kynningarfund með frambjóðendum til alþingiskosninga.
Segið svo að það sé ekkert um að vera í þessum bæ!
Bloggar | 1.3.2007 | 11:01 (breytt kl. 11:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þessi vika hefur farið í mjög ,,interessant" sjúkleika á heimilinu, nefnilega gubbupest. Ólöf Björk á mánudag og þriðjudag, Jakob Unnar í gær og í dag. Spurning hvernig sú stutta kemur út úr þessu.
Stóru börnin eru reyndar mjög dugleg við þessar aðstæður...þessar elskur.
Bloggar | 1.3.2007 | 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tvennt hefur pirrað mig í fréttaflutningi vikunnar.
Í fyrsta lagi endalausar þulur upp úr dómsmeðferð Baugsmálsins. Ég er hundleið á að heyra hvað hver sagði við hvern og hvenær undir hvaða kringumstæðum. Eða sagði ekki. Eða hvort einhver sagði satt eða ekki satt. Eða hvort einhver vissi eitthvað um skútur eða skip sem einhver átti eða átti ekki. Ég er kannski lítið áhugasöm um samtímamál ....en þetta er amk eitt þeirra mála sem ég nenni ekki að velta mér uppúr.
Annað mál...sem ég hef reyndar oft látið fara í taugarnar á mér. Þegar kynferðisafbrotamenn eru dæmdir, td. fyrir kynferðisglæpi gegn börnum er farið í smáatriðum yfir verknaðinn í fréttatímum útvarps og sjónvarps á hvaða tíma sem er. Mér finnst þetta óþarfi. Við vitum öll nóg og mér finnst óþarfi að börn (sem á þessu heimili hlusta á fréttir) þurfi að sitja undir lýsingunum. Áhugasamir geta bara flett upp í dómunum...
Sammála?
Bloggar | 27.2.2007 | 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég skrapp sem sagt til Akureyrar í vetrarfríinu. Flaug með börnin á fimmtudaginn og til baka heim á mánudag. Það þarf ekki að orðlengja það, að dvölin á heimili tengdaforeldranna var hin notalegasta og gerðist vart betri þó á hóteli væri. Lítilsháttar lasleiki dró aðeins máttinn úr okkur Unni þannig að við vöktum ekki nema (!) til tvö á næturnar við kjaftagang og hvítvínssötur
Það var gaman að Guðný Sif kom til landsins fyrir helgi og dvaldi á Akureyri ásamt fylgdarliði. Það var gaman að hitta hana og kynnast fylgdarsveinunum svolítið. Hún er sæl og ánægð þessa dagana...það leynir sér ekki.
Við Ólöf Björk heimsóttum Þórhildi Helgu fyrrum samkennara minn sem nú er skólastjóri Lundarskóla á Akureyri. Það var mjög gaman að skoða skólann hennar og auðvitað líka að hitta hana.
Hittum svo Auði langömmu og slatta af öðru fólki, norðlensku og sunnlensku og áttum þegar á allt er litið fínustu helgi.
Flugferðin heim var ekki góð, mikil ókyrrð í lofti og Jakob minn þoldi það illa og varð veikur. Það jafnaði sig fljótt og allir komu glaðir og sælir heim.
Bloggar | 22.2.2007 | 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar