Færsluflokkur: Bloggar
Í fjölskyldunni eru þrír vatnsberar, allir yndislegir og í raun afar ólíkir hver öðrum.
Jakob Unnar sonur minn varð 7 ára í gær 2. febrúar. Hann hélt veislu fyrir bekkinn sinn í gær og aðra fyrir vini og ættingja í dag. Margir gestir og fullt af fallegum og góðum gjöfum. Umfram allt var drengurinn þó hamingjusamur og naut sín í botn sem aðalpersónan!
Auður Björk mágkona mín á afmæli á morgun, 4.febrúar. Hún verður 31 árs, sem mér finnst í rauninni furðulegt...fyrir mér er hún alltaf litla systir hans Sigga og unglingur að eilífu! En hún er yndislegur unglingur, umhyggjusöm og frábær frænka barnanna minna. Hún er snyrtifræðingur og rekur Snyrtistofuna Arona á Akureyri. Auður er flink og smekkleg heima fyrir og í vinnunni.
Guðný Sif er líka mágkona mín (og systir Sigga). Hún verður 32 ára á þriðjudaginn, 5. febrúar. Guðný býr í Kaupmannahöfn og Reykjavík til skiptis og ferðast þess á milli til Asíu. Guðný er gullsmiður og hannar undur fallega skartgripi undir vörumerkinu Sif Jakobs design. Guðný er hörkudugleg og mjög listræn.
Hér fyrir neðan set ég myndir af þessum yndislegu vatnsberum um leið og ég óska þeim til hamingju með afmælin! Og Ólöf fær að fljóta með af því hún er svo sæt á þessari mynd með frænku!
Guðný og Jakob UnnarAuður og Ólöf Björk
Bloggar | 3.2.2008 | 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í morgun á heimili mínu: Enginn fjölskyldumeðlimur var á leið út úr húsi, enda sunnudagur og hundleiðinlegt veður. Þar sem yfirvofandi eru foreldraviðtöl í vikunni og nokkuð margt sem ég átti óunnið ákvað ég að nýta sunnudagsmorguninn. Þá fór fram eftirfarandi samtal mæðgna:
Sissa: Jæja best að drífa sig á fætur og koma sér af stað
Auður: Hvett er vi að faða?
Sissa: Við erum ekkert að fara, mamma er að fara
Auður: Ó, baða mamma faða?
Sissa: Já, þú verður heima hjá pabba, Ólöfu og Jakobi
Auður: Hvett ett að faða?
Sissa: Ég þarf að skreppa aðeins í vinnuna.
Auður (hugsi): En mamma, þú ett ekki maðuð. (En mamma, þú ert ekki maður!)
Ergo: Einungis MENN vinna. Mömmu sem fara í stóra skólann á morgnana eru ekki að fara að vinna. Þær eru að fara að KENNA.
Hvað er að bregðast hér?
Bloggar | 27.1.2008 | 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
...að ég hafi hætt að kenna í sunnudagaskólanum?
Ég fann auðvitað svo vel á eigin skinni hve mér var betur treyst sem kennara en trúarleiðtoga
Kennurum treyst best á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 17.1.2008 | 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Engin mér ókunnug, óskyld og ótengd fjölskylda er mér eins kær og fjölskylda Jökuls heitins Jakobssonar. Mér finnst ég bókstaflega þekkja það fólk þó ég hafi aldrei talað við neitt þeirra augliti til auglitis. En ég elska það sem það skrifar. Ég bókstaflega drekk í mig allt sem frá Jökulsbörnum kemur, hvar sem ég kemst yfir það og hef alltaf unun af lestrinum. Og er eiginlega alltaf sammála...ef um einhver ágreiningsmál er ritað. Pistlarnir hans Illuga í Fréttablaðið eru alltaf góðir og oftast frábærir, Elísabet er ljóðskáld með einstaka lífssýn og er ,,penni" af Guðs náð og hver féll ekki fyrir Kríu- bókunum hennar Unnar. Og nú bíða mín á náttborðinu sögurnar af Ströndum eftir Hrafn. Ég hlakka til að fara uppí ...og ég kvíði því þegar bókin er búin. Á allt of lítið eftir af henni. Næsta sumar langar mig að fara í ferðalag ... þangað sem vegurinn endar.
En börnin hans Jökuls hafa ekki erft ritfærnina frá föðurnum einum. Ó nei. Jóhanna Kristjónsdóttir er sú kona íslensk sem einna best er skrifandi að mínu mati. Perlur og steinar- árin með Jökli, besta endurminningabók/ævisaga sem ég hef lesið eftir íslenska konu.
Annars hef ég nú eftir jól lesið þrjár ágætisbækur. Báðar nýju bækurnar eftir Gyrði Elíasson; Sandárbókina og Steintré. Og svo var ég að klára Dauða trúðsins eftir Árna Þórarinsson. Steintré best þessara þriggja að mínu mati. Hmmm.....hvað segið þið um það?
Bloggar | 16.1.2008 | 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
...er Kristrún Gestsdóttir. Hún er 13 ára í dag, orðin táningur! Kristrún er dóttir vina okkar Siggu og Gests og er af mörgum ástæðum mjög nátengd okkur í fjölskyldunni.
Kristrún er klár og kraftmikil stelpa, falleg, músíkölsk, hress og góð í gegn.
Á myndinni er hún með systur sinni Bergrúnu og börnunum mínum eldri einu rigningarstundina okkar í Danmörku sumarið 2006. Hún hefur nú stækkað og þroskast síðan þá stúlkan.
Til hamingju með daginn elsku Kristrún!
Bloggar | 12.1.2008 | 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
...er eitt þeirra ágætu félaga sem ég hef starfað með um dagana. Það er einmitt 50 ára um þessar mundir og í tilefni af því var heilmikil lesning í Glugganum um félagið og starfsemina gegnum tíðina. Mjög góð og fróðleg lesning satt að segja og rifjaði upp margar góðar minningar um skemmtilegar sýningar, bæði í gamla Selfossbíói og svo í Leikhúsinu við Sigtún.
Ég tók ekki þátt í nema einni uppfærlsu hjá Leikfélaginu. Það var haustið ´83, sama haust og ég varð stúdent en þá var leikritið Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason sett upp í Selfossbíói. Eftir áramótin æfðum við stykkið upp á ensku því þá um vorið var farið á leiklistarhátíð á Írlandi, sem var ævintýri fyrir 19 ára stúlkukind sem aldrei hafði farið til útlanda. Það var reyndar ævintýri fyrir okkur öll og ógleymanleg reynsla. Ótrúlega skemmtilegt! Og það eru myndir af mér í Glugganum
Ég var í ,,grúppunni", söng hlutverk Mary en þeir sem léku á hljóðfærin voru bræðurnir Smári og Helgi Kristjánssynir, Gunnar Árnason (Eddu-verðlaunahafi og bróðir Betu vinkonu) og síðast en ekki síst snillingurinn Gísli Helgason flautuleikari. Þeir voru frábærir félagar og kenndu mér ótrúlega margt...þó sumt sé nú gleymt!
Fleiri eftirminnilegar persónur væri nú hægt að nefna úr uppfærslunni en mér þótti Silli Magg alltaf stórkostlegur leikari og yndislegur félagi. Blessuð sé minning hans.
Til hamingju Leikfélag Selfoss og takk fyrir mig!
Bloggar | 10.1.2008 | 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 7.1.2008 | 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við Söngfélagar vorum beðnir að syngja við jarðarför aldinnar sómakonu í dag. Það var okkur bæði ljúft og skylt, enda fyrrum félagi sem óskaði eftir söngnum.
Athöfnin var hátíðleg og falleg í blíðviðrinu sem hér ríkir í augnablikinu.
Og ég hefði ekki trúað því hvað það var gott að fá að koma aftur í kirkjuna mína og syngja fallegu útfararsálmana. Ég sakna þess arna.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi,
ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Bloggar | 5.1.2008 | 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við áramót fer fólk gjarnan yfir það helsta sem á daga þess hefur drifið á árinu. Ég set hér inn að gamni stærstan hluta jólabréfsins sem ég sendi með jólakortinu til þeirra sem ég hitti sjaldan. Kannski nennir einhver að lesa.
Árið sem senn er liðið frá síðustu kveðju hefur verið okkur afskaplega gott. Ekki hefur neitt sérstakt borið til tíðinda, en allir fjölskyldumeðlimir hressir og kátir.
Þrennt langar mig þó að nefna sem var sérlega skemmtilegt á árinu.
Á vordögum seldum við gamla tjaldvagninn okkar og keyptum okkur fellihýsi (maður verður nú að taka þátt í kapphlaupinu!). Við ferðuðumst um landið þvert og endilangt með hýsið í eftirdragi og áttum alveg yndislegt sumar, enda veðurblíðan með eindæmum. Fórum víða og oft í frábærum félagsskap góðra vina.
Þann 14. september varð Siggi svo (loksins) fertugur. Við héldum vinum okkar, ættingjum og vinnufélögum hans veislu í tilefni af tímamótunum og varð það hin besta skemmtun. Hér var borðað, drukkið og sungið til morguns og í raun var þetta ógleymanlegur dagur.
Af sama tilefni héldum við svo til Kaupmannahafnar með Ragnari og Jóhönnu vinahjónum okkar. Þar með endurtókum við leikinn frá því fyrir þremur árum þegar við stöllur urðum fertugar og við héldum til London. Kaupmannahafnarferðin tókst frábærlega þó ekki hafi afrakstur hennar orðið sá sami og eftir Lundúnir, en 9 mánuðum eftir þá ferð fæddist örverpið okkar öllum að óvörum!
Daglegt líf okkar er nú ósköp svipað ár frá ári.
Sigga miðar vel í trésmíðanáminu og líkar vel í vinnunni. Hann hefur að mestu verið að vinna hér í Höfninni og líkar okkur öllum það vel. Hann hefur nú haft minni tíma til veiða en hann hefði kosið og afraksturinn því ekki sérlega mikill, a.m.k. ekki í skotveiðinni. Við eigum þó rjúpur í jólamatinn og gæs um áramótin...og við biðjum ekki um meira!
Ég sinni kennslunni minni, móðurhlutverkinu og heimilisstörfunum eins vel og ég get. Auk þess sit ég í menningarnefnd sveitarfélagsins, sem er afskaplega skemmtilegt og svo syng ég auðvitað alltaf með kórnum mínum. Það er ómissandi. Ég hef nýverið hætt sem formaður foreldrafélags leikskólans og í haust tók ég líka þá ákvörðun að hætta sem sunnudagaskólakennari í kirkjunni minni, en því starfi hef ég sinnt um 16 ára skeið. Allt hefur sinn tíma!
Ólöf Björk (12 ára) sinnir sínu vel að vanda; skólanum, fimleikunum, þverflautunáminu, lúðrasveitinni, kórnum og vinkonunum. Hún er dugleg og samviskusöm stúlka sem við erum afskaplega stolt af.
Jakob Unnar (6 ára) byrjaði í grunnskóla í haust. Hann er líka duglegur strákur, reyndar mjög ólíkur systur sinni en sækist námið vel og er prúður og glaður. Hann stundar líka fimleika en er hættur í knattspyrnu að sinni a.m.k. Strákurinn okkar er hvers manns hugljúfi sem við þökkum fyrir að hafa eignast.
Auður Magnea (2 ára), litla örverpið okkar, er mikill gleðigjafi á heimilinu. Hún er óskaplega hress og glaðlyndur krakki og stundum veltum við því fyrir okkur hvernig heimilishaldið væri ef okkur hefði ekki verið send þessi stelpa. Hún er í leikskóla og þar gengur allt eins og í sögu enda elskar hún að leika, syngja og láta lesa fyrir sig.
Já, ríkidæmi okkar er mikið.
Bloggar | 2.1.2008 | 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kæru lesendur
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Vonandi leggst það jafn vel í ykkur og mig. Ég hlakka til ársins 2008.
Flott ártal
Bloggar | 1.1.2008 | 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar