Árið 2007

Við áramót fer fólk gjarnan yfir það helsta sem á daga þess hefur drifið á árinu. Ég set hér inn að gamni stærstan hluta jólabréfsins sem ég sendi með jólakortinu til þeirra sem ég hitti sjaldan. Kannski nennir einhver að lesa.

Árið sem senn er liðið frá síðustu kveðju hefur verið okkur afskaplega gott. Ekki hefur neitt sérstakt borið til tíðinda, en allir fjölskyldumeðlimir hressir og kátir.

Þrennt langar mig þó að nefna sem var sérlega skemmtilegt á árinu.

Á vordögum seldum við gamla tjaldvagninn okkar og keyptum okkur fellihýsi (maður verður nú að taka þátt í kapphlaupinu!). Við ferðuðumst um landið þvert og endilangt með hýsið í eftirdragi og áttum alveg yndislegt sumar, enda veðurblíðan með eindæmum. Fórum víða og oft í frábærum félagsskap góðra vina.

Þann 14. september varð Siggi svo (loksins) fertugur. Við héldum vinum okkar, ættingjum og vinnufélögum hans veislu í tilefni af tímamótunum og varð það hin besta skemmtun. Hér var borðað, drukkið og sungið til morguns og í raun var þetta ógleymanlegur dagur.

Af sama tilefni héldum við svo til Kaupmannahafnar með Ragnari og Jóhönnu vinahjónum okkar. Þar með endurtókum við leikinn frá því fyrir þremur árum þegar við stöllur urðum fertugar og við héldum til London. Kaupmannahafnarferðin tókst frábærlega þó ekki hafi afrakstur hennar orðið sá sami og eftir Lundúnir, en 9 mánuðum eftir þá ferð fæddist örverpið okkar öllum að óvörum!

Daglegt líf okkar er nú ósköp svipað ár frá ári.

Sigga miðar vel í trésmíðanáminu og líkar vel í vinnunni. Hann hefur að mestu verið að vinna hér í Höfninni og líkar okkur öllum það vel. Hann hefur nú haft minni tíma til veiða en hann hefði kosið og afraksturinn því ekki sérlega mikill, a.m.k. ekki í skotveiðinni. Við eigum þó rjúpur í jólamatinn og gæs um áramótin...og við biðjum ekki um meira!

Ég sinni kennslunni minni, móðurhlutverkinu og heimilisstörfunum eins vel og ég get. Auk þess sit ég í menningarnefnd sveitarfélagsins, sem er afskaplega skemmtilegt og svo syng ég auðvitað alltaf með kórnum mínum. Það er ómissandi. Ég hef nýverið hætt sem formaður foreldrafélags leikskólans og í haust tók ég líka þá ákvörðun að hætta sem sunnudagaskólakennari í kirkjunni minni, en því starfi hef ég sinnt um 16 ára skeið. Allt hefur sinn tíma!

Ólöf Björk (12 ára) sinnir sínu vel að vanda; skólanum, fimleikunum, þverflautunáminu, lúðrasveitinni, kórnum og vinkonunum. Hún er dugleg og samviskusöm stúlka sem við erum afskaplega stolt af.

Jakob Unnar (6 ára) byrjaði í grunnskóla í haust. Hann er líka duglegur strákur, reyndar mjög ólíkur systur sinni en sækist námið vel og er prúður og glaður. Hann stundar líka fimleika en er hættur í knattspyrnu að sinni a.m.k. Strákurinn okkar er hvers manns hugljúfi sem við þökkum fyrir að hafa eignast.

Auður Magnea (2 ára), litla örverpið okkar, er mikill gleðigjafi á heimilinu. Hún er óskaplega hress og glaðlyndur krakki og stundum veltum við því fyrir okkur hvernig heimilishaldið væri ef okkur hefði ekki verið send þessi stelpa. Hún er í leikskóla og þar gengur allt eins og í sögu enda elskar hún að leika, syngja og láta lesa fyrir sig.

Já, ríkidæmi okkar er mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband