Illugi... uppáhalds pistlahöfundurinn

Ég er búin að velta fyrir mér í tvo daga að blogga um ákvörðun prestastefnu Þjóðkrikjunnar varðandi hjónaband samkynhneigðra. Fann ekki út úr því hvernig ég ætti að byrja...en í stuttu máli sagt var ég leið yfir íhaldssemi kirkjunnar manna og þröngsýni. Sr. Baldur fjallar á málefnalegan hátt um þetta umdeilda mál. En Illugi Jökulsson er í Blaðinu í dag með flotta grein. Illugi skrifar oftast greinar sem mér finnast skynsamlegar og sýn hans á þetta mál er þar ekki undantekning. Ég skora á ykkur að lesa grein Illuga.


Einn koss enn ...

...og ég segi ekki orð við Jónatan.

 Leikritið hjá Leikfélagi Ölfuss var bara bráðskemmtilegt og leikararnir allir stóðu sig frábærlega. Alltaf gaman í leikhúsi. Takk fyrir skemmtunina.

Það truflaði mig samt svolítið að ekki skyldu allir komast að sem vildu, þurfti að vísa fólki frá við innganginn því ekki var selt nema í afmarkaðan hluta salarins (sem var reyndar góð hugmynd út frá leikhúslegu sjónarmiði). Sem sagt uppselt í kvöld. Í gærkvöldi hefðu fleiri komist að ....en það gátum við ekki vitað sem ákváðum að fara heldur í kvöld - eða komumst ekki nema í kvöld. Ég vildi bara að fleiri hefðu getað notið skemmtunarinnar sem var fín, mjög fín.


Síðan síðast..

...hef ég gert eftirfarandi:

  • verið sjóveik um borð í Herjólfi á leið til Vestmannaeyja
  • sungið tónleika í Eyjum með söngfélögum mínum í Söngfélaginu, Freyjukórnum og Kaffihúsakór Vestmannaeyja
  • Hitt gamla bekkjarfélaga úr Kennó og skipulagt ,,endurfundi"
  • Farið út að borða og átt skemmtilega kvöldstund með sama fólki
  • Gengið um Heimaey
  • Horft á Makakórinn slá í gegn einu sinni enn
  • Horft á sauðfé á beit fyrir ofan efstu kletta í Heimaey
  • Siglt heim frá Eyjum í blíðviðri (og varð ekki sjóveik!)
  • Knúsað krakkana mína þegar ég hitti þá aftur eftir tveggja sólahringa fjarveru

 Ekki amalegt þetta!


Gleði, gleði, gleði....

....gleði líf mitt er....

 Þessa dagana er mikið um að vera og allt svo ljómandi skemmtilegt!

  • sumardagurinn fyrsti í gær og hátíðahöld í tilefni dagsins. Sól skein í heiði og veðrið dásamlegt. Ólöf Björk sýndi dans og stóð sig rosa vel. Dansherrann var Haukur Andri bekkjarbróðir hennar og sex aðrir krakkar úr bekknum dönsuðu með þeim. Flottir krakkar.
  • Vortónleikar Söngfélagsins voru líka í gærkvöld. Gestir kvöldsins var Freyjukórinn úr Borgarfirði. Við erum svo á leið til Vestmannaeyja þar sem við syngjum tónleika með þeim á morgun. Vonandi að sjóferðin gangi vel Crying
  • Fylgi Samfylkingarinnar rís samkvæmt nýjustu könnunum! Eins og við var að búast. Fólk hlýtur að fara að taka við sér!!! Gleðiefni að mest virðist fylgið í okkar kjördæmi. Við því var líka að búast Wink
  • Vorum í frábæru fimmtugsafmæli á miðvikudagskvöldið á Hafinu bláa við hafið bláa!. Veðrið, staðurinn, umhverfið, gestgjafarnir, veitingarnar, tónlistin og gestirnir gerðu kvöldið einstakt. Takk fyrir okkur Elli og Ásta.
  • Verið að skipuleggja vinkonuhitting, vorferðir, sumarleyfi, heimsókn danskra vina í sumar og fleira sem gerir lundina enn léttari.

Það er gaman að þessu! 


Litla systir

HrundÞetta er Hrund litla systir mín. Það eru stórir dagar í hennar lífi þessar vikurnar. Fyrir skemmstu ákvað hún að huga að því að flytja frá Flúðum og setjast að á Selfossi. Þar fékk hún mjög spennandi starf sem hún sóttist eftir og hlakkar til að takast á við.

Hörður sonur hennar varð 16 ára í gær, það er líka merkilegt. Hún á afmæli í næstu viku, verður 34 ára. Ekki alveg eins merkilegt nema maður fari að reikna út hvað hún varð ung móðir. Það er kannski svolítið merkilegt!

Svo var stór dagur í dag. Hún fékk staðfestingu á því að hún væri að verða íbúðareigandi í fyrsta sinn. Hún flutti að heiman þegar hún var rúmlega tvítug, en hefur aldrei fjárfest í eigin húsnæði áður. Það er nú aldeilis merkilegur áfangi finnst mér.

Í vor lýkur hún svo framhaldsnámi sem hún hefur verið að sinna meðfram fullu starfi á Flúðum. Hún verður sem sagt sérkennari frá KHÍ. Áður hafði hún lokið diploma-námi í kennslu yngri barna. Hún er eiginlega búin að vera að læra síðan hún útskrifaðist sem kennari. Hún er seig sú stutta!

Til hamingju með þetta allt elsku systir!


Landsfundur

Ég hef hótað íhaldssömum vini mínum að blogga stíft um landsfund Samfylkingarinnar sem ég sat um helgina. Ég hef endurskoðað þá hótun. Nenni ekki að reyna að segja ykkur hve frábær upplifun fundurinn var og hvað flokkurinn hefur á að skipa einstaklega hæfileikaríkum og listrænum stjórnmálamönnum. Einn þeirra er þessi sem segir á bloggi dagsins allt sem segja þarf um fundinn.  Ég vona bara að hann komist á þing...þjóðin þarf á því að halda.

Ég held að botninum sé náð hvað varðar fylgi...nú stefnir allt upp á við  Smile

X-S


Kippir í kynið

Yngsta barnið okkar, Auður Magnea, sem ekki verður tveggja ára fyrr en í sumar, er nammigrís.

Þar kippir henni í kynið ...ég meina kynin...því nammigrísir fyrirfinnast í báðum ættum (foreldrar þar með taldir).

Meðfylgjandi er mynd frá páskadagsmorgni. Krúttið...í grútskítugum náttfötum glímir hún við páskaeggið og svona ykkur að segja  þá hafði hún betur í glímunni. Það steinlá!

Ekki gott uppeldiBlush

Maður kann þetta sko!


X-S

 Ég var því miður ekki við sjónvarpið þegar forystufólk stjórnmálaflokkanna hóf formlega kosningabaráttu fjölmiðlanna í Kastljósi á annan í páskum. Hins vegar hafa margir sagt mér að Ingibjörg Sólrún, formaðurinn minn, hafi verið frábær og mörgum finnst hún hafa borið af. Ég læt hér að neðan fylgja texta sem Björgvin G. Sigurðsson, leiðtogi S-listans í Suðurkjördæmi skrifaði á heimasíðuna sína eftir þáttinn:

Það var gaman að vera Samfylkingarmaður við sjónvarpið í kvöld. Ingibjörg Sólrún formaður okkar stóð sig afar vel í þessum fyrstu formlegu kappræðum formanna flokkanna sex. Glansaði í gegnum þáttinn með öruggum og þægilegum hætti.

Þetta var gott upphaf af hinni formlegu kosningabaráttu. Um helgina verða landsfundir beggja stóru flokkanna og þá taka línur að skýrast.

Samfylkingin kynnir drög að ályktunum landsfundar á morgun og upptaktur fyrir landsfundinn er kominn á fullt. Þetta verðar skemmtilegar vikur. Samfylkingin leikur til sigurs. Ingibjörg gaf tóninn í kvöld. Nú er bara að troðfylla Egilshöllina og halda kraftmesta landsfund sem fram hefur farið.

Tónninn er sleginn. Fylkjum liði á fundinn jafnaðarmenn.

                 


Fríið á enda

Þetta er búið að vera fínt páskafrí fyrir utan það að einkasonurinn var veikur í marga daga. Það er alltaf leiðinlegt. Ógeðsleg gubbupest á ferð.

Að öðru leyti var þetta gott og ótrúlegt hve miklu var afrekað á þessum dögum þrátt fyrir veikindin. Alls konar útréttingar sem lengi höfðu beðið. Fermingarmessa, tvær fermingarveislur, haldið matarboð fyrir mágkonuna í Danmörku og kærastann, farið í tvö æðisleg matarboð...annað var skemmtilegur vinafundur hér í Þorlákshöfn þar sem borðað var dýrindis svín, hitt var hefðbundið páskaboð hjá mömmu, hangikjöt með öllu og þá meina ég öllu, meira að segja laufabrauði! Svo var slappað af inn á milli, farið í göngutúr, kaffi hjá vinum, borðað súkkulaði og krakkarnir knúsaðir.

Höfum oft verið norður á Akureyri í faðmi tengdafjölskyldunnar um páska og það er alltaf frábært. En stundum er bara gott að vera heima.

 

 

Sálfræði sölumennskunnar

Við hjónin skruppum í bæinn um síðustu helgi til að skoða fellihýsi. Við erum að hugsa um að kaupa okkur notað hýsi fyrir 600-800.000. Þar sem við erum ekki þau fróðustu í þessum bransa ákváðum við að fara á helstu staðina og skoða hönnun og skipulag þeirra hýsa sem í boði eru á markaðnum. Við skoðuðum aðallega þessi nýju, þau notuðu eru flest í geymslu ennþá.

Og það var ekki vandamál. Nóg var af græjunum. Og sölumennirnir eru snillingar. Áður en við vissum af sátum við inni á skrifstofu hjá einum þeirra og vorum næstum því búin að kaupa eitt glænýtt á 1560.000....og það var sko tilboð dauðans. Hann var að gera okkur þvílíkt tilboð og tækifæri lífsins til að eignast vagninn mikla sem að sjálfsögðu var það nauðsynlegasta sem okkar fjölskylda gat eignast á þessum tímapunkti.

,,En við eigum ekki þennan pening"....sögðum við. En það var nú ekki vandamálið. Ekkert út og afgangurinn á sjö árum!!!!

Sem betur fer drusluðumst við út án þess að skrifa undir neitt og um leið og við keyrðum burtu sáum við að við höfðum nærri látið gera okkur að fíflum. Hugsið ykkur. Þvílík sálfræði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband