Ég varð pínu leið í gær þegar ungu aðventistarnir komu á dyrnar hjá mér og spurðu mig nokkurra spurninga um páskahátíðina. Ekki leið vegna heimsóknarinnar, heldur vegna þess hvernig svörin mín við spurningunum voru. Fyrir mér eru páskarnir fyrst og fremst frídagar og afslöppun með fjölskyldunni...og því svaraði ég hreinskilnislega þegar þeir spurðu. En eftir á að hyggja var ég ekki ánægð með svarið. Ég hefði viljað segja þeim hve mikla þýðingu páskahátíðin hefði fyrir mig í trúarlegu tilliti.
Það verður að segjast eins og er að eftir að ég hætti að syngja í kirkjunni með kórnum mínum þá hefur hlutverk helstu hátíða kirkjuársins breyst. Mig vantar áminninguna, upprifjunina, nálægðina.
Kannski ég skelli mér í messu á eftir.
Bloggar | 8.4.2007 | 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
...og af því tilefni set ég enn inn mynd af henni og að þessu sinni með fallegu fjölskyldunni hennar. Þið getið smellt á myndina til að sjá hana stærri.
Bloggar | 7.4.2007 | 12:02 (breytt kl. 15:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á morgun, skírdag, ætla tvö börn sem okkur eru afar kær að staðfesta skírnarheitið og fermast.
Brynja bróðurdóttir mín fermist í Selfosskirkju og Þorsteinn Már Ragnarsson í Þorlákskirkju. Mér finnst merkilegt að komið sé að þessum tímamótum. Man svo vel eftir því þegar þessir tveir einstaklingar litu dagsins ljós árið 1993. Finnst það hafa verið í gær!
Ég vona að morgundagurinn verði þeim góður og framtíðin björt og farsæl. Þau eru bæði yndisleg.
Kát og hress, klár og dugleg og umfram allt metnaðarfull með skýr markmið. Að standa sig vel. Svo eru þau íþróttafólk af guðs náð. Þeim eru allir vegir færir...
Fann enga góða mynd af Þorsteini en set í staðinn tvær af Brynju Veit reyndar ekki hvort hún verður ánægð með það ...en ég er svo ánægð með hana að ég má til!
Bloggar | 4.4.2007 | 11:03 (breytt kl. 17:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þór T2 - fimleikahópurinn hennar Ólafar Bjarkar kom heim með gull (trampólín), silfur (dans) og brons (dýna) verðlaun af HSK mótinu á Selfossi í gær. Frábær árangur hjá þeim.
Ég gleymdi auðvitað myndavélinni en set hér inn mynd af dömunni þegar hún fékk nýja fimleikabolinn afhentan um daginn. Sennilega eru þetta happabolir!
Duglegar stelpur. Til hamingju T2!
Bloggar | 3.4.2007 | 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er svo skrýtið að þó ég sé búin að búa fleiri ár minnar ævi annars staðar en á Selfossi þá finnst mér ég alltaf vera Selfyssingur Það lýsir sér meðal annars í því að ég les sérstaklega í blöðum það sem kemur frá Selfossi og leitast við að tengja fólk og fyrirbæri þangað. Og þannig var það í gær. Í BLAÐINU voru þrjú opnuviðtöl við þekkta menn úr þjóðfélaginu. Mjög þekkta en hvern á sínu sviði. Og það sem mér fannst athyglivert var að þeir áttu allir rætur á Selfoss. Selfyssingar voru sem sagt uppistaðan í Blaðinu.
Runólfur Ágústsson fyrrverandi háskólarektor á Bifröst er alinn upp í næstu götu við mig. Hann er ári eldri, var í bekk með Rögnu vinkonu. Ég þekki hann ekki lengur....en hann er Selfyssingur eins og ég
Einar Bárðarson Concert- meistari og X-Faktor dómari er líka alinn upp á Selfossi. Hann er meira að segja ættaður úr Tungunum eins og ég, ef mér skjátlast ekki. En ég þekki hann ekki....enda maðurinn svo miklu yngri en ég!
Jón Arnar Magnússon frjálsíþróttakappi er að vísu ekki alinn upp á Selfossi heldur í fjallaloftinu í Gnúpverjahreppnum. En fjölskylda hans er líklega sú stærsta á Selfossi og teygir sig víða því Sigga og Jón í Eftirlitinu eru afi hans og amma. Mamma hans er sem sagt alin upp á Selfossi svo rætur hans liggja þangað. Mér finnst drengurinn alltaf vera Selfyssingur.
Mér fannst gaman að lesa um þessa stráka einu sinni enn... ekki síst þar sem þeir lögðu svona undir sig blaðið.
Nú þurfa blaðamenn bara að hafa upp á nokkrum kröftugum, selfysskum stelpum sem hafa gert garðinn frægan
Bloggar | 1.4.2007 | 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Undanfarin 20 ár hafa kaffi og matartímar á mínum vinnustað oft snúist upp í umræður um mat, mataruppskriftir, megrun, alls konar átök, kúra, duft, salöt, kíló og kaloríur. Þetta er stundum hundleiðinlegt (sérstaklega þegar maður er of feitur) en oft fellur maður í gryfjuna og lifir sig inní ósköpin.
Í dag las ég grein í föstudags BLAÐINU eftir Ólaf Sæmundsson næringarráðgjafa. Frábær grein sem slær á svo margt bull sem er í gangi, mýtur um megrun og óhollustu. Kolvetnaspekina, spekina um súkkulaðifíknina og fleira. Og ég tek mark á honum. Það vita allir þetta sem hann sagði. ALLIR. Enginn nýr sannleikur. Maður bara gleymir sér í bullinu. Það er enginn of feitur af því hann borðar BARA of mikið af kolvetnum. Það er enginn of feitur af því hann borðar BARA of mikið af fitu. Og það er enginn of feitur BARA af því að hann er sjúkur í sælgæti.
Þeir sem eru of feitir bíta meira en þeir brenna. Punktur.
En það skal tekið fram að oft er talað um eitthvað skemmtilegra í kaffitímunum í vinnunni!
Bloggar | 25.3.2007 | 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar ég horfi á Gettu betur í sjónvarpinu finn ég til samkenndar með fólki sem missir sig yfir íþróttaleikjum í sjónvarpi. Spurningakeppnir og handboltaleikir eru eina sjónvarpsefnið sem ég sleppi fram af mér beislinu... Þarf jafnvel að hjálpa til.
Frábær lið í kvöld, MK og MH.....ég hélt samt með MH upp á gamlan kunningsskap
Bloggar | 23.3.2007 | 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
...fór vel fram. Allir pabbar og mömmur, afar og ömmur sem mögulega komast láta sjá sig til að fylgjast með afkomendunum slá í gegn! Og þau slá alltaf í gegn blessuð börnin Þetta árið var árshátíðin byggð upp á þemavikunni sem var í síðustu viku...fjölmenningarlegri þemaviku. Unnin voru verkefni, listaverk og skemmtiatriði sem tengjast löndunum sem börnin í 1.-4. bekk eiga uppruna sinn í.
Rúmenía, Pólland, Tæland, Filipseyjar, Litháen, Rússland og Ísland voru kynnt þetta árið. Þetta var fróðlegt, skemmtilegt og vonandi gagnlegt. Það er mikið ríkidæmi að við skulum hafa tækifæri til að kynnast fólki svo víða að. Það víkkar sannarlega sjóndeildarhringinn. T.d. er ég viss um að ónefnd kennslukona hefur ekki kynnst neinum íslenskum pabba á sama hátt og þeim sem hún sat með á kennarastofunni í lengri tíma einn sunnudaginn um daginn og lærði að syngja meistari Jakob á ónefndu tungumáli! Fólk lagði sig svo sannarlega fram við undirbúning þemavikunnar!
Þetta tókst vel en ég neita því ekki að ég er svolítið lúin. Það er langur vinnudagur frá 8-19...sérstaklega í kjölfar óvenjulegrar vinnuviku. En það er gott að vera lúin og nú langar mig mest að leggjast upp í sófa og horfa á Aðþrengdar eiginkonur á Rúv+. Horfi nefnilega aldrei á sjónvarp fyrr en eftir að liðið er komið í ró. Og þó....ekki alveg satt. Reyni að horfa a.m.k. með öðru á Gettu betur sem mér hefur þótt skemmtilegt sjónvarpsefni frá því MINN SKÓLI sigraði 1986. Í það eina skipti
Bloggar | 22.3.2007 | 21:48 (breytt kl. 23:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svolítið skrýtinn dagur í minni fjölskyldu.
Sorgardagur því pabbi minn, Hörður Ingvarsson, lést þennan dag fyrir 21 ári, tæplega 59 ára gamall. Erfiðasta lífsreynsla mín hingað til.
Gleðidagur því Óli hennar mömmu (og okkar allra) á afmæli þennan dag. Hann fæddist 1940 og er því 67 ára í dag.
Tilviljun?
Bloggar | 20.3.2007 | 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Má til með að setja hér inn mynd af Auði Magneu hinni fyrri og síðari. Það má ekki á milli sjá hvor er myndarlegri. Sú eldri er fædd á sumardaginn fyrsta (21.apríl) 1921 og verður því 86 ára eftir u.þ.b. mánuð. Ég gæfi mikð fyrir að hafa hennar útlit og heilsu á þessum aldri. Sú yngri verður tveggja ára í sumar og er líka frábær!
Bloggar | 19.3.2007 | 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar