á allt og alla!
Þó jólin séu að baki kom þessi jólatexti upp í hugann í morgun þegar litið var út um gluggann. Í nótt hafði snjóað þessi ósköp. Ungviðið var ánægt bæði hér heima og í skólanum en ég sjálf sé nú ekki margt huggulegt við snjó í þessu magni. Torfært til að byrja með um allar götur og ófært með barnavagninn á gagnstéttum og göngustígum. Bara vesen. Ég uppgötvaði sem sagt í dag lúxusinn við það að hafa autt allt haustið (eins og verið hefur) þegar maður ferðast nær eingöngu innanbæjar með barnavagn á undan sér. EN...þetta er auðvitað ekkert mál. Ég hef valið að búa á þessu landi þar sem vænta má allra veðra svo ég segi ekki meir...
Ég hef líka valið að búa hér í Þorlákshöfn þar sem eina matvöruverslunin nú um stundir heitir Kjarval. Sú er í dýrari kantinum finnst okkur sem höfum notið þess að versla í Krónunni um nokkurra missera skeið. Ég nenni ekki að gera verðkannanir, kaupi bara það sem þarf en viðurkenni að síðan Kjarval mætti í bæinn hef ég að mestu verslað í Bónus . En þó ég geri sjaldan verðsamanburð má ég til með að segja ykkur frá því að í gær vantaði mig gulrófu í kjötsúpuna. Skrapp í Kjarval með klink, því mér fannst að rófurassgatið gæti kannski kostað 50 kall. Ó, nei. Ein lítil rófa kostaði 136 krónur. Kílóverðið var 232 kr. og því gat ég ekki á mér setið þegar ég kom í Bónus í dag að athuga kílóverðið þar. Og viti menn, akkúrat 100% munur, kílóið á 116 krónur!
Ja það er ekki sama hvort það er Jóhannes Kjarval eða Jóhannes í Bónus!
Þetta er nú svona eftir á að hyggja fremur neikvæð færsla og því ætla ég að enda á því að segja að ég er samt ljómandi glöð, vinadagarnir fara vel af stað og svei mér þá ef ég hef ekki grætt snjómokstur í innkeyrslunni minni á því að eiga góðan leynivin. Mig grunar það
Bloggar | 10.1.2007 | 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í dag var aðalfundur Starfsmannafélagsins haldinn og um leið hófust leynivinadagar. Hvert okkar dró eitt nafn vinnufélaga og verður hann leynivinur þar til á föstudagskvöld. Þá verður Póllandskvöld - myndakvöld vegna Póllandsferðar starfsmanna í haust og þá skal það opinberast hver leynivinurinn er.
Ég fékk góðan leynivin. Reyndar er alveg sama hvern af vinnufélögunum ég hefði dregið, þeir eru allir góðir vinir og gaman að gleðja mitt fólk. Nú þarf bara að leggja höfuðið í bleyti, og það með hraði, því eitthvað huggulegt verð ég að reyna að gera fyrir vininn. En best að segja ekki meira. Aldrei að vita nema hann kíki á síðuna. Því eitt er víst. Hér lesa margir á laun Yfir 50 manns á ferli í dag, eitt komment og engin gestabókaskráning. Ég á ekki bara leynivin, ég á leynilesara í tugatali. Gaman að því
Bloggar | 9.1.2007 | 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég var að skrá tengla að þær síður sem ég les helst (fyrir utan stelpurnar mínar) eru allar skráðar af karlmönnum. Hvar eru konurnar? Bendið mér endilega á skemmtilegar lesningar eftir konur. Ég held það sé eins og með svo margt annað (viðtöl í fjölmiðlum, greinar í blöð, stjórnmálaþátttöku) - konurnar gefa sig ekki í þetta. Auðvitað veit ég að margar skemmtilegar konur ,,í almannaeign" (eins og þessir karlar eru sem ég les) skrifa pistla á heimasíður sínar...ég þarf bara að detta inn á þær. Þarf að skella einni inn sem ég fann af síðunni hans Bjarna Harðar. Harpa mágkona hans er snilldarpenni og stórgáfuð...
Bloggar | 9.1.2007 | 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þá held ég að allt sé að komast í lag hérna hjá mér. Tenglarnir orðnir virkir og síðan komin með útlit sem ég held að sé bara í lagi. Gestirnir mættu svo alveg skrá sig í gestabók eða gefa komment!
Bloggar | 9.1.2007 | 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 8.1.2007 | 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
... er 18 mánaða í dag. Eitt og hálft ár síðan hún kom óboðin í þennan heim. En velkomin var hún og sannarlega yndi og eftirlæti allra í dag...enda æðisleg manneskja!
Bloggar | 7.1.2007 | 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 7.1.2007 | 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá eru jólahátíðin á enda þetta árið með viðeigandi sprengjum og ljósadýrð. Ekki sömu ósköpin og á gamlárskvöld en slatti samt. Við erum reyndar ekki mikið sprengjufólk, en finnst gaman að horfa. Tókum líka þátt í álfasöng, blysför og brennu í dag. Fínn siður að kveðja jólin á þennan hátt.
Þessi jólahátíð hefur verið mjög ánægjuleg fyrir margra hluta sakir. Nokkur dæmi um skemmtilegheit:
- Borðuðum rjúpu í fyrsta sinn á jólum. Allir ánægðir og verður endurtekið að ári
- Nýr fjölskyldumeðlimur kynntur til sögunnar í jólaboðinu á jóladag. Fullorðinn.
- Ólöf Björk fékk möndlugjöfina í skötuveislunni í Eyjahrauninu. Alveg nýtt í okkar fjölskyldu.
- Tengdaforeldrar mínir og Auður Björk voru sunnan heiða yfir áramótin. Dvöldu daglangt hjá okkur, öllum til mikillar ánægju. Þau mættu alveg renna sér oftar...
- Jónas, Svava og Thelma Sif komu í heimsókn. Alltof sjaldgæft en alltaf gaman.
- Áramótagæsin sló í gegn á heimilinu. 13 manns í mat og allir hrifnir. Gott mál.
- Siggi var í fríi milli jóla og nýárs. Það hefur aldrei gerst áður í okkar búskap og var algjörlega yndislegt.
Sem sagt: Fínt jólafrí og allir hraustir og kátir. Samvera með fjölskyldunni er sjaldan meiri en þessa daga og af því tilefni set ég inn mynd af barnabörnunum hennar mömmu, heima í Hjarðarholti á jóladag. Föngulegur hópur sem við eru svo stolt af.
Bloggar | 6.1.2007 | 23:29 (breytt kl. 23:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er að læra. Nú er það myndainnsetning.
Hér eru ungarnir mínir; Ólöf Björk, Jakob Unnar og Auður Magnea
Bloggar | 4.1.2007 | 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggar | 4.1.2007 | 22:12 (breytt kl. 22:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar