Maður getur ekki skilið allt

Mig langar að deila með ykkur krúttlegu samtali sem fór fram í bílnum á leiðinni frá Selfossi í gærkvöld. Yngri börnin höfðu verið í pössun hjá mömmu og Óla, sem þau reyndar freistast til að kalla afa, eða Óla afa. Með okkur í för var Ingibjörg samkennari minn sem hafði verið með mér á fundi en síðan heimsótt móður sína á Sjúkrahúsið á Selfossi. Þangað sóttum við hana.

Mamman: Nú sækjum við Ingibjörgu, hún var að heimsækja mömmu sína á sjúkrahúsið.

Auður: Hvað heitir mamma hennar.

Sissa: Hún heitir Þórhildur

Auður: Hvað heitir pabbi hennar?

Mamma: Hann hét Þorleifur Kjartan

Ingibjörg kemur inní bílinn.

Auður: Hvað heitir mamma þín?

IÞÞ: Hún heitir nú Þórhildur

Auður: Hvað heitir pabbi þinn?

IÞÞ: Hann hét nú Þorleifur, en hann er farinn til Guðs eins og Hörður afi ykkar.

Jakob: Ég á bara tvo afa, Jakob afa og Óla afa. Ef Hörður afi væri lifandi ætti ég þrjá afa.

Mamma: Nei, Jakob. Ef Hörður afi væri lifandi væri Óli ekki maðurinn hennar ömmu.

Jakob (hugsi): Ó nei...auðvitað ekki. En ég veit eitt betra. Þá ætti Óli aðra konu og þá ætti ég þrjá afa og þrjár ömmur!

Jamm...það er svo margt sem maður þarf að skilja í þessari veröld.

Amma og Óli ,,afi" með liðið.

Með ömmu og Óla afa


Fýlufáni

Ég hef nú aldrei tjáð mig á þessari síðu um lyktina hræðilegu sem liggur yfir bænum okkar allt of oft. Það er ólýsanlegur fnykur sem fylgir ákveðinni atvinnustarfsemi hérna og er gjörsamlega að gera fólk  (flest fólk) brjálað. Fólk skammast sín þegar gesti ber að garði og veigrar sér við að viðra eða þurrka þvott þegar verst lætur. Margir hafa kvartað til umhverfisráðuneytis, heilbrigðisyfirvalda og atvinnurekenda sjálfra, en málið virðist í einhvers konar patt stöðu. Lyktin lagast að minnsta kosti ekkert.

fáninn2

Í gær keyrði um þverbak. Það var páskadagur og hér á bæ var flaggað eins og á flestu fánadögum. Þegar ég tók fánann niður við sólarlag og hengdi ég hann upp í vaskahúsinu því var hann svolítið rakur eftir vætu dagsins. Og ég trúði vart mínum eigin skynfærum. Fáninn (og þar með vaskahúsið) angaði af ýldufýlunni. Þetta er náttúrlega ekki hægt! Á sjálfan páskadag.


Skíðagarpur

Jakob Unnar fór til Akureyrar um páskana.  Jónas frændi bauð eldri börnunum með norður og sá stutti skellti sér. Ólöf Björk var önnum kafin í fermingarstússi vinkonu sinnar og var heima með okkur hinum. Jakob fór á skíði í fyrsta sinn og gekk víst býsna vel. Afi hans setti hann á fjögurra tíma skíðanámskeið og þar með var færninni náð...skilst mér. Við fengum sendar myndir af garpinum og ég geri tilraun til að senda eina með.Skíðagarpur

Páskar

Þetta páskafrí hefur verið með nokkuð öðru sniði en áður hjá okkur. Oft höfum við farið norður á Akureyri og varið fríinu með tengdafjölskyldunni, nú eða verið hér heima í algjörri afslöppun og leti.

Nú hefur aftur á móti allt verið á fullu. Baðherbergið er að taka á sig nýja mynd eftir að allt var rifið út úr því, lagnir endurnýjaðar og ný tæki og innréttingar keypt. Í þessu skrifuðu orðum er Siggi minn að flísaleggja veggina og þetta fer að líta út eins og mannabústaður. Ég hef verið frekar ,,stikkfrí" í eiginlegri vinnu inni á baðherbergi en nóg verið að snúast í útréttingum, reddingum og að halda öllu hinu gangandi (sem sagt halda litlu manneskjunni frá baðherberginu!).

Læt fylgja eina mynd af ósköpunum þegar verst var!Hggulegt!


MA sigraði!

Það gladdi mitt kvenlega landsbyggðarhjarta að MA skyldi vinna undanúrslitakeppni við MH í Gettu betur nú rétt áðan.

Ég held að aldrei áður hafi tvær stelpur verið í úrslitum í þessari keppni, a.m.k. ekki í sama liðinu.

Það er gaman. Og tími til kominn.  Reyndar klárir krakkar í báðum liðum og spennan í hámarki.

Spurningakeppnir eru einu íþróttaviðureignirnar sem ég get misst mig yfir; öskrað, hvatt og blótað!


Fundir, um fundi, frá fundum, til funda

Það er ótrúlegt hve mikið getur hrúgast inn af fundarboðum sumar vikurnar.  Ég veit nú ekki hvernig þetta væri ef ég væri í ábyrgðarmeiri hlutverkum en ég er....

Í gærkvöld var aðalfundur Söngfélagsins. Í dag fer ég á fund á Selfossi til að undirbúa Aðalfund Félags grunnskólakennara sem stendur í tvo daga í næstu viku. Á morgun er ég boðuð á fund á Selfossi um framtíðarsýn í skólamálum. Svo var ég að fá tvö fundarboð í næstu viku, fyrir utan áðurnefndan aðalfund FG.

Maður má bara varla vera að því að vinna..........hvað þá hugsa um börn og bú. Gott að eiga góða að með barnapössunn þegar bóndinn vinnur fram á kvöld og frumburðurinn er að Reykjum í Hrútafirði í skólabúðum Wink


Bækurnar á náttborðinu

Óvenju margar og góðar bækur liggja nú á náttborðinu hjá mér (fyrir utan barnabækurnar sem eru þar í bunkum af skiljanlegum ástæðum.

Danska frúin á Kleppi

Þetta er bók sem ég hef áður vitnað í hér vegna gamalla tengsla minna við höfundinn, Hildigunni Hjálmarsdóttur. Nú er ég búin að lesa hana og það verð ég að segja að þetta er stórmerkileg bók. Hún er vissulega sérstök, byggist á 100 ára gömlum bréfum danskrar stúlku og aðstandenda hennar meðan hún er í tilhugalífinu við íslenskan geðlækni og stjórnmálajaxl sem er í þann mund að opna ,,geðveikraspítala" (Kleppsspítala) á Íslandi.  Saga þeirra Ellenar Kaaber og Þórðar Sveinssonar er þannig rakin í gegnum þessi bréf og inn í hana fléttast heimsatburðir og danskt þjóðfélagslíf þessa tíma skín í gegn. Fyrir fólk eins og mig, sem er næstum því forvitin um annað fólk og að auki áhugasöm um danska menningu frá ýmsum tímum, var þetta sérlega skemmtileg lesning.

Himnaríki og helvíti

Ég var að ljúka við að lesa þessa stórgóðu verðlaunabók Jóns Kalmans Stefánssonar. Þar gerast atburðir ekki hratt þótt hrikalegir séu og sorglegir. Textinn er undur vel gerður, sagan merkileg með margvíslegar skírskotanir í fortíðina. Það er sannarlega þess virði að taka sér þessa bók í hönd.

 Gísla saga Súrssonar

Þessi saga er alltaf á náttborðinu hjá mér á nokkurra ára fresti, þ.e. þau ár sem ég tek að mér að lesa hana með 10. bekkingum. Nú er svoleiðis ár og ég á þeysireið með krökkunum um Vestfirði. Ólíkt Himnaríki og helvíti, sem líka gerist á Vestfjörðum, er farið hratt yfir sögu á Gísla sögu. Atburðir eiga sér ekki langan aðdraganda, hvorki mannvíg né hjónabönd. En hún er alltaf jafn góð og mörg gullkornin sem hún geymir. Ég fæ aldrei leið á Gísla sögu.

Fjöllin verða að duga.

Fyrir þá sem hafa gaman af að lesa ljóð verð ég að mæla með þessari ljóðabók eftir Einar Má Guðmundsson. Ég hef gripið í hana annað slagið síðustu daga og mikið lifandis skelfing er hann gott skáld maðurinn!  Ég held ég mæli bara með henni fyrir all...líka þá sem ekki hafa haft gaman af ljóðum. Þeir hljóta að skipta um skoðun!


Óþarfa ummæli

Mér þóttu ummæli Friðriks Ómars í lok Eurovisionkeppninnar í gærkvöld óþörf og dónaleg. ,,Bylur hæst í tómri tunnu" sagði hann og engum duldist við hvað hann átti.

Ég er þó enginn sérstakur aðdáandi ,,Hey, hey hey, we say ho, ho, ho,  og fannst svo sem nóg um auglýsingafárið og íburðinn í síðustu viku.

En í orðum Dalvíkingsins unga fólst ekki göfugur keppnisandi. En kannski finnst mér þetta af því ég var nýkomin heim af HSK þingi þar sem ég ritaði fundargerð frá kl. 10-18 og var uppfull af hinum gamla, góða, eina sanna ungmennafélagsanda.


Vetrarfrí

Ég og eldri börnin mín erum í vetrarfríi.  Slík frí í skólum eru seinni tíma uppgötvun á Íslandi (hafa lengi verið við lýði annars staðar í heiminum).  Mörgum þótti þetta nú meiriháttar vesen og óþarfi í upphafi og voru lengi að uppgötva að hægt væri að skipuleggja sinn orlofstíma á þann veg að njóta vetrarfrísins með börnum sínum. En það er ekki bara skólafólk sem fær vetrarfrí.

Við höfum oft skroppið norður til tengdó í þessu fríi. Það var ekki hægt núna því þau voru í London.

Þá hefði nú verið huggulegt að kíkja á Selfoss til mömmu. En það var ekki hægt í þessu fríi því þau eru á Kanarí.

Upplagt að renna þá á Álftanesið til Jónasar mágs míns og fjölskyldu...en því miður ekki hægt. Þau eru í skíðaferð á Ítalíu.

Það eru sem sagt fleiri en kennarar og nemendur í skólum þessa lands sem fara í vetrarfrí.

Það er gott. Það er gott að hvíla sig frá amstri hversdagsins.


Áminning

Fékk alvarlega áminningu áðan vegna blogg-leti minnar. Ég fæ nefnilega skömm í hattinn frá fólkinu mínu út um allan heim ef ég stend mig ekki í fréttaflutningi. Því fólki er alveg sama þótt ég bloggi ekki um málefni líðandi stundar í íslensku eða alþjóðlegu samhengi. Enda nógu margir sem blogga um það.

Þess vegna blogga ég bara um það sem kemur upp í hugann, oftast óháð dægurmálunum.

En ég les margar góðar bloggsíður um þau.

Nefni sem dæmi prestinn minn og bloggvin Baldur Kristjánsson . Hann er duglegur að blogga um íslensk stjórnmál, alþjóðleg vandamál eins og rasisma og hryðjuverk og síðast en ekki síst um trúmál.

Þá má nefna annan bloggvin sem er Selfyssingur eins og ég en hefur búið lengi í Þorlákshöfn, Hafstein Viðar. Hann bloggar um fréttir dagsins, ekki síst ef þær fjalla um sjávarútvegsmál eða enska boltann!

Þórhildur Helga skólastýra á Akureyri og vinkona mín síðan hún kenndi með mér hér í Höfninni bloggar oft um fólkið sitt en líka gjarna um menntamál og svo sameiginlegt áhugamál okkar: mat.

Önnur skólakona og gömul vinkona Jónína Rós, bæjarfulltrúi á Egilsstöðum bloggar um allt mögulegt, en sennilega oftast um skólamál, stjórnmál og ágæti þess að búa á Héraði. Ég vísa hér með á hana þar sem ég er ofstast sammála henni, enda Samfylkingarkona og landsbyggðarkona.

Svo er alltaf gaman að kíkja á síðuna hennar Gunnu Sigríks  því hún bloggar um Þorlákshöfn og yfirleitt menn og málefni sem ég þekki býsna vel til...

Og nú verð ég að fara að taka mig á. Heiti því að blogga meira á næstu vikum en ég hef gert hingað til Whistling


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband