Ég hlakka til....

  • að fara í sumarfrí á morgun
  • að geta loks tekið til hendinni í garðinum mínum
  • að fara í útilegur sumarsins....vonandi margar, margar
  • að fara í grillveislu annað kvöld
  • að gefa óvenjulega afmælisgjöf á laugardaginn

Mér þótti gaman...

  • á skólaslitunum eins og alltaf. Tregafullt en skemmtilegt. Var montin af stelpunni minni sem spilaði eins og engill og las upp eins og fjallkonan
  • að fá vitnisburðinn frá skólanum um börnin mín. Þau eru dugleg en þau hafa líka frábæra kennara sem þau virða og dá. Það er mikils virði.
  • að heimsækja stelpurnar mínar allar í sveitina þann 31.maí. Sauðburður á fullu og þær svo ,,eðlilegar"...skítugar, kátar og innilega ,,sveitó". Þær elska að vera í Flögu.
  • að halda upp á afmælið hennar Ólafar á þriðjudagskvöldið. Tólf kátar stelpur borðuðu pizzu, kökur og snakk, spiluðu bingó og fóru í ratleik. Ég vildi alveg vera þrettán!
  • að fá Kára frænda minn í heimsókn. Hann er svo ljúfur og góður drengur

Táningur

Frumburðurinn okkar, hún Ólöf Björk, á afmæli í dag.  Fæðing hennar var langþráð og ég man eins og gerst hefði í gær stundina sem ég fékk hana fyrst í fangið fyrir þrettán árum. Hún var afar velkomin í þennan heim. Dag hvern þakka ég Guði fyrir að hafa gefið okkur hana.

Til hamingju með afmælið elsku fallega, duglega stelpan okkar.ÓBS


Stór stund í lífi fjölskyldu...

...en lítil í mannkynssögunni.

Auður Magnea stóð fyrir framan spegilinn á laugardagskvöldið, spýtti út úr sér snuðinu (sem hefur verið henni sem vindlingur stórreykingamanni frá fæðingu) og sagði:,, É hætt me duddu". Og þar með var það ákveðið. Pínu löngunar gætti fyrstu tvær næturnar en á þriðja degi varð úr að losa sig endanlega við allar snuddurnar úr húsi. Hún tók líka sjálf ákvörðun um það hvað skyldi gert við þær...henda þeim í sjóinn og gefa hákörlum, fiskum og selum. Ekki beint umhverfisvænt en ég vona að okkur fyrirgefist í nafni góðs málstaðar.  Suðurvararbryggjan varð fyrir valinu og meðfylgjandi eru myndir frá athöfninni Wink

Nú er barnið orðið stórt. Ekkert smábarn á heimilinu lengur.

En hvaðan hefur barnið þennan sjálfstæða vilja og staðfestu?

Gula snuddan farinSnuddur á floti


Skýrir ýmislegt!

Þetta voru nú ekki upplýsingarnar sem ég þurfti á að halda í dag. Brjóstagjafarharmsaga þessa heimilis rekur sig allt aftur til ársins 1964 þegar ég sjálf fæddist. Móðir mín mun ekki hafa haft mig á brjósti nema í nokkrar vikur, enda lítil sem engin mjólk til staðar (og ég alltaf þurft mikið).

Þegar ég sjálf eignaðist börnin mín var svipað uppi á teningnum, þrjóskast var við í nokkra mánuði með endalausum sjálfsásökunum (og annarra ásökunum) um að ég væri næstum óhæf til undaneldis vegna lélegrar mjólkurframleiðslu og stöðugrar þurrmjólkurgjafar samhliða brjóstagjöf.

Samkvæmt þessari frétt er Hörður frændi minn gáfaðastur okkar allra. Í frumbernsku hans flæddi mjólkin svoleiðis úr barnungri móður hans að virkja hefði mátt til rafmagnsframleiðslu fyrir  meðalþorp á landsbyggðinni. Hann fékk alltaf nóg...og meira en það.

Þarna er sem sé komin skýringin á áberandi mismunandi gáfnafari í fjölskyldu minni.

Á myndinni má sjá illa nærðu börnin mín þegar sú yngsta var enn á brjóstiKrúttin. Hvað með greindarsvipinn?

 


mbl.is Áhrif brjóstamjólkur á greind barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisbörn vikunnar - vorboðar ljúfir

Í gær átti Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir afmæli. Hún varð 12 ára daman. Aðalbjörg og Ingibjörg frænka hennar eru í vinkvennahópnum hennar Ólafar Bjarkar. Þær eru báðar frábærar stelpur, duglegar, skemmtilegar og klárar. Mér finnst það hafa gerst í gær að þær voru bornar saman til skírnar í Þorlákskirkju og gefin þessi þjóðlegu og fallegu nöfn - ömmunöfn í báðum tilfellum. Þær eru fæddar með viku millibili, Ingibjörg verður 12 ára næsta sunnudag. Á myndinni hér að neðan eru þær að spila á trompetana sína í Versölum, en þær eru góðir trompetleikarar og mjög músíkalskar.

Á sumardaginn fyrsta árið 1921 fæddist afmælisbarn dagsins í dag, Auður Magnea Jónsdóttir. Hún er amma hans Sigga míns, langamma barnanna minna. Heiðurskonan sú er sem sagt 87 ára og sagði mér í símtali áðan að hún hefði tekið fram reiðhjólið í dag. Loksins komið almennilegt veður og færð fyrir norðan svo hún skellti sér á bak í tilefni dagsins. Geri aðrir betur... það er enginn hægðarleikur á hjóla á Akureyri, a.m.k. ekki þegar maður býr ,,á Brekkunni".  Á myndinni hér að neðan má sjá hana með fjölskyldunni á skírnardegi Auðar Magneu okkar þann 29.október 2005. Hún gerði okkur þann greiða að halda barninu undir skírn, en það þótti okkur sérlega vænt um, ekki síst þar sem við höfðum valið nafnið hennar á örverpið.

Á fimmtudaginn kemur, sumardaginn fyrsta, 24.apríl verður litla systir mín Hrund,  35 ára. Mér finnst nú alls ekki svona langt síðan hún fæddist...þá var ég níu ára og ákaflega spennt fyrir þessu litla kríli. Hún var auðvitað eins og örverpi eru gjarnan, aðalpersónan á æskuheimilinu, afskaplega ljúft og skemmtilegt barn. Skapið var þó aldrei langt undan og ég var nú sem betur fer flutt að heiman þegar gelgjuskeiðið brast á! En fullorðinsárin hafa farið vel í hana og gott ef hún líkist ekki stóru systur meira með hverju árinu sem líður Smile  Myndin af Hrund er líka frá skírnardegi Auðar Magneu en Hrund er guðmóðir minnstu frænku.

Ég óska þessum frábæru sumarstelpum öllum innilega til hamingju með afmælin!

Flottar frænkur  Amma með 2 

Fínar frænkur 2
                                            

Einfalt

Nú hef ég sem sagt stækkað myndir sem fylgdu síðustu færslum og þið getið þá séð hvað Hörður frændi er sætur og ekki síður börnin, amma og afi í færslunni þar á undan.

Svo lengi lærir sem lifir.


Prófa þá

Hef fengið leiðbeiningar frá henni Helgu.

Prófa þá aftur... og set inn mynd af afmælisbarni febrúarmánðar, Jakobi Unnari 7 ára.

Afmælisstrákur


Litlar myndir

Af hverju eru allar myndir sem ég set inn svona litlar.
Getur einhver leiðbeint mér?


Lítill drengur ljós og fagur...

Hörður systursonur minn er reyndar ekkert lítill lengur...hefur reyndar ekki verið lítill í nokkur ár. En fyrir mér er hann alltaf litli frændi. Kannski af því litla systir mín átti hann þegar hún var enn lítil!

En Hörður varð sem sagt 17 ára í vikunni. Hann er kominn með bílpróf. Nýfæddur.

Honum til mikillar gleði birti ég hér mynd af honum, reyndar ekki alveg nýrri en sætur er hann drengurinn og hefur alltaf verið.

Hörður sæti frændi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband