Öðruvísi jól...

...og engar rjúpur borðaðar.

Vegna heiftarlegrar magakveisu 80% fjölskyldunnar var ákveðið að geyma rjúpurnar til betri tíma. Vegna sömu kveisu urðu hátíðahöld og undirbúningur þeirra með talsvert öðru sniði en vant er. Við reyndum þó að skapa hátíðleika og láta okkur líða vel saman. 20 % sem héldu heilsu (Ólöf Björk) stóð sig eins og hetja og hélt þessu gangandi.

Nú eru allir að skríða saman og við heitum því að njóta þess sem eftir lifir af jólahátíðinni.

Ég vona að þið sem þessi orð lesið (og allir hinir auðvitað líka!) hafið átt gleðileg jól.  Bið ég ykkur allrar blessunar yfir konfektinu og jólabókunum.


Rjúpur á jólum

298623703_610e7da1f4Fann þessa fallegu rjúpnamynd á síðunni hennar Helgu.

Ætti maður að hafa móral yfir því að hlakka til að leggja þær sér til munns eftir tæpan sólarhring?

Varla.


Gubbupest

Þau vita hvað þau eru að gera kennarabörnin á þessu heimili. Bíða með veikindi þar til mamma (og þau sjálf) er komin í jólafrí. Yngri börnin eru sem sagt komin með gubbupest og hita og Jakob Unnar missti meira segja af fyrstu kertastund sinni í Grunnskólanum í morgun.

Við höfum verið heppin í vetur. Engin veikindi utan einn dagur hjá Auði Magneu í vetrarfríinu (!).

Það góða við gubbupestir er að þær tekur fljótt af Pinch


Jólabörn

Ég var svo glöð um daginn þegar ég uppgötvaði að það eru fleiri eins og ég...þ.e.a.s. eru engin sérstök JÓLABÖRN. Mér hefur nefnilega þótt það vera nokkurs konar skylda allra að segjast vera jólabörn. Og ef manni finnst maður ekki vera jólabarn þá sé maður bara ekki eins og fólk er flest.

Eins og áður hefur komið fram þykir mér samt alls ekkert leiðinlegt á jólunum. Þvert á móti er það bara rosalega gaman; hátíðleg og notaleg fjölskyldusamvera sem nærir líkama og sál. Gott að vera í fríi, gaman að upplifa gleðina í augum barnanna minna, gaman að fá pakka og jólakort. Svo ekki sé talað um allan góða matinn. Þetta er mjög gott að upplifa a.m.k. einu sinni á ári. Og það finnst Sveinbirni I. Baldvinssyni rithöfundi og blaðamanni líka. En hann viðurkenndi það í blaðagrein um daginn að hann væri alls ekki jólabarn. Og þar með fékk ég staðfestingu á því að ég er ekki ein í heiminum....sem ekkijólabarn.

Ég veit samt ekki hvernig ,,barn" ég er. Kannski útilegubarn. Eða bókabarn. Eða eitthvað! Mér finnst gaman að lifa, allan ársins hring meðan ég hef fólkið mitt hamingjusamt í kringum mig. Vetur, sumar, vor og haust.


Jólakort

Mér finnst ekkert skemmtilegra í jólaundirbúningnum en að skrifa á jólakortin. Að senda kveðjur til ættingja, vina og kunningja um allar trissur er þungamiðjan í mínum jólaundirbúningi. Og langskemmtilegast.

Smákökubakstur, jólagjafakaup, jólafatakaup, hreingerningar, jólaföndur eða hvaða nafni sem það nefnist allt þetta sem við gerum fyrir jólin ... nær alls ekki að skapa sömu stemninguna og jólakveðjuskrifin gera.

Og ekkert toppar svo stundina á aðfangadagskvöld þegar jólakortin sem við fáum eru loksins opnuð og lesin. Það er stundin.


Kvenna-fréttatími

Veit ekki hvort það er algengt að konur séu í öllum hlutverkum á fréttastofu RÚV á einu í einum og sama fréttatímanum. Ég tók að minnsta kosti eftir því áðan. Jóhanna Vigdís las fréttirnar, Þóra Tómasdóttir sá um Kastljósið (fréttatengt) og íþróttafréttir og veðurfréttir voru líka lesnar af konum. Gott mál og algjörlega sjálfsagt.

Veit ekki hvort ég hefði tekið eftir því ef þetta hefðu allt verið karlar. Sennilega ekki. Þannig hefur það oftast verið.


Árlegar annir

Mikill uppskerutími er nú í gangi, fyrir utan venjuleg störf og stúss, þvotta og þrif.

Yfirlit yfir síðastliðna og komandi daga:

Fimmtudagur 29.nóv: Selfossferð þar sem Ólöf Björk og Kristrún spiluðu undraflottan dúett á suðrænum tónleikum Tónlistarskóla Árnesinga. Frábært.

Laugardagur 1.des: Foreldradagur í fimleikunum. Foreldrar mættu og sprikluðu með krökkunum sínum ....og stóðu sig vel. Ég fékk tvöfaldan skammt ....bæði börnin vildu hafa mig með. Sama dag voru árleg veisluhöld hjá Halldóri og Ester...alltaf jafn yndislegt að sækja þau hjón heim.

Sunnudagur 2.des. Aðventustund í kirkjunni þar sem Ólöf Björk söng með kórnum sínum. Þangað mættum við öll, og líka þegar ljósin á jólatrénu voru tendruð enda sungu bæði eldri börnin þar í kórnum. Litla skottið var auðvitað með og skemmti sér konunglega þó Grýla og jólasveinarnir hafi kannski ekki heillað  hana alveg upp úr skónum! Á heimleiðinni fórum við svo í árlegt aðventukaffi til Hugrúnar okkar en hún átti afmæli þann 29. Ekki fór maður svangur af því heimilinu frekar en fyrri daginn!

Þriðjudagur 4.des: Kóræfing hjá okkur mæðgum með Lúðrasveit Þorlákshafnar vegna fyrirhugaðra tónleika á fimmtudag (í kvöld)

Miðvikudagur 5. des: Reykjavíkurferð hjá okkur Auði Magneu eftir vinnu. Læknastúss. Jólafundur menningarnefndar um kvöldið.

Fimmtudagur 6.des: Litlu jólin hjá Jakobi Unnari og  mér. Þau tókust rosalega vel og að loknum skemmtiatriðum spilaði hin frábæra jólasveinahljómsveit Lúðrasveitarinnar, sem er sko algjört skemmtiband. Frábært að geta haldið uppi jólaballi með undirleik nemenda skólans. Algjörlega frábært.  Og nú rétt í þessu  var ég að koma heim af jólatónleikum Söngfélags, Lúðrasveitar og skólakórs. Þeir tókust mjög vel og voru vel sóttir. Mér finnst jólin vera á næsta leiti þegar þessir tónleikar eru að baki.

Framundan: Læknaferð til Reykjavíkur á morgun, laufabrauðsgerð annað kvöld, Jólasýning fimleikadeildarinnar á laugardagsmorgun, Reykjavíkurferð með vinahjónum  um helgina, tónleikar hjá Flautupúkum í Árbæjarsafni á sunnudaginn, jólaball hjá dagmæðrum líka á sunnudaginn (Auði Magneu boðið)....

Þegar næsta helgi er búin get ég farið að snúa mér að jólaundirbúningi heima fyrir....enda nægur tími. Skrif á 100 jólakort munu taka meiri tíma en flest annað í þeim undirbúningi, en þau eru líka langskemmtilegust Smile Bara anda rólega og brosa. Sinna fólkinu sínu, vinum og ættingjum...dauðu hlutirnir og óhreinir skápar fara ekkert frá manni....


Efnileg

Hún verður einhvern tímann góð. Við gripum hana glóðvolga með míkrfóninn, dillandi sér fyrir framan spegilinn. Og hún er bara tveggja ára!

Söngkona framtíðarinnar


Karlkyns starfsheiti

Ég er ekkert óánægð með tillöguna hennar Steinunnar Valdísar um að finna nýtt starfsheiti á ráðherrana, starfsheiti sem vísi til beggja kynja. En mér finnst þetta ekkert ,,möst".  Ég er ekki viss um að það skipti nokkru máli þegar kemur að stjórnmálaþátttöku kvenna eða jafnrétti kynjanna yfirleitt.

Ég las áðan fínan pistil hjá þessum manni þar sem hann talar um þetta hitamál (og fleiri tengd mál). Mér þótti sérstaklega athyglivert innleggið um karlkynsorðið feministi. 

Og ég velti fyrir mér fleiri starfsheitum, flestir þeir sem ljúka embættisprófum eða lokaprófum af einhverju tagi úr háskóla bera karlkyns starfsheiti...og ekki hefur það fælt konur frá háskólanámi. Þær ku vera orðnar mun fleiri en karlar í þeim stofnunum. Þær vilja gjarnan verða læknar, málfræðingar, prestar, djáknar, verkfræðingar, lögfræðingar, stjórnmálafræðingar.

Um hvað snýst þetta? Er ég að misskilja eitthvað? Eða bara alls ekki að skilja?

Ég veit að pælingin er ,,politically incorrect"............en það verður bara að hafa þaðWink


Afmælisveisla

Venjulega heldur maður sjálfur afmælisveilsur og býður fólki gjarnan eitthvað gott í gogginn. Þetta árið var ég hins vegar svo ljónheppin að góðvinir mínir héldu mér veislu. Ég tel mér að minnsta kosti trú um að matarboðið sem okkur hjónunum var boðið í á laugardagskvöldið hafi verið mér til heiðurs. Húsráðendur höfðu meira að segja boðið fleiri góðum vinum líka svo úr varð mikil veisla.

Og þar var ekkert skorið við nögl. Sjávarfang í óteljandi útgáfum; humar, smokkfiskur, langlúra, kræklingur, hörpuskel, þorskur......mmmmm ég fæ vatn í munninn! Og súkkulaðimús í eftirrétt.

Ætli þetta sé ekki orðin hefð....ég meina að bjóða mér í mat á afmælisdaginn....ha?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband