Færsluflokkur: Bloggar
...síðan við komum heim úr Stykkishólmi.
Finn hjá mér hvöt til að segja ykkur frá því, einkanlega tvennu. Hef ekki orku núna, en þið fáið kannski á morgun að lesa um brúðkaup Jónasar og Svövu um síðustu helgi og svo heljarinnar fertugsafmæli Sigga míns um helgina.
Það er brjálað að gera. Kaupmannahöfn um næstu helgi. Námskeið um hina helgina. Og svo allt á fullu í vinnu, barnauppeldi og félagsstörfum þess á milli. Hvernig kem ég mér í þetta allt saman????
Meira síðar.
Bloggar | 16.9.2007 | 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við vorum í Stykkishólmi um helgina í aldeilis frábæru veðri og góðum félagsskap. Þar voru haldnir hátíðlegir danskir dagar sem ku vera elsta svokallaða bæjarhátíð landsins.
Danskir dagar voru nú reyndar ekki ástæðan fyrir ferð okkar vestur. Góðir vinir okkar eiga þarna hús og buðu ,,genginu" sem hefur haldið hópinn nú í rúm 20 ár að koma og dvelja hjá sér um helgina. Það var góð hugmynd. Átta fullorðnir og átta börn og unglingar nutu helgarinnar við líf og leik, mat og músík, sund og skemmtanir - en fyrst og fremst yndislega samveru. Sterkur vinahópur er ómetanlegt ríkidæmi.
Takk fyrir okkur
Bloggar | 20.8.2007 | 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á morgun hefst 21. ár mitt í kennslu við grunnskóla. Ég útskrifaðist sem sagt vorið 1987 og kenndi fyrst í tvö (afdrifarík) ár á Kirkjubæjarklaustri. Það var ómetanleg reynsla og skemmtileg.
Í 18 ár hef ég svo kennt við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Það hafa verið góð ár, enda skólinn sá frábær vinnustaður.
Mér finnst tíminn hafa flogið. Ég trúi því ekki að ég sé orðin svona gömul...í árum talið.
Ég er heppin að hafa valið mér starf sem mér þykir enn jafn skemmtilegt og mér þótti fyrir 20 árum. hef enn ekki fundið neitt sem ég vil frekar starfa við. Ég er samt svekkt yfir laununum sem greidd eru fyrir mitt mikilvæga starf. Ég fullyrði að enginn háskólamenntuð starfsstétt í fullu starfi með 20 ára starfsreynslu þiggur jafn lág laun og kennarar gera
Ég veit ekki hvenær ég hætti að tuða yfir laununum mínum. Kannski ef ég upplifi það að fá einhvern tímann 200.000 útborgað á mánuði .
Bloggar | 20.8.2007 | 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
...og vetrarrútínan að hefjast á morgun. Mæti sem sagt til starfa í skólanum í fyrramálið. Eins og sumarið er nú búið að vera frábært, þá hlakka ég til að fara að vinna. Hlakka til að hitta alla frábæru vinnufélagana en ekki síður blessuð börnin sem byrja í næstu viku. Það eru tímamót í okkar fjölskyldu. Jakob Unnar að hefja skólagöngu í grunnskóla og spennan vex með degi hverjum!
Við höfum verið á faraldsfæti í sumar, farið í margar helgarútilegur og svo í 10 daga ferð nú í ágúst.
Viðkomustaðir í þeirri ferð:
Skaftafell (sem er stórkostlegt náttúruundur og alltaf jafn gaman að heimsækja)
Höfn í Hornafirði (Unglingalandsmót UMFÍ- ótrúlega skemmtileg samkoma)
Reyðarfjörður (Fín tjaldstæði með sturtu og allt....ókeypis!)
Egilsstaðir (Nærri því árlegur viðkomustaður og alltaf gaman)
Akureyri (Hefðbundin sumarheimsókn til tengdó...næs og skemmtilegt)
Bloggar | 14.8.2007 | 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú hefur verið gert opinbert hverjir greiða hæstu skattana á skerinu. Einnig er það tíundað hver greiðir hæstu skattana í hverju skattaumdææmi fyrir sig. Allt eru það karlar sem greiða hæstu gjöldin með einni undantekningu þó. Það er hún Ingibjörg landslagsarkitekt, líklega með lögheimili á jörðinni sinni á Vesturlandi. Einhverra hluta vegna er eiginkvenna ,,kónganna" ekki getið í fréttaflutningi en það skal ekki fara fram hjá neinum að ,,drottingin" er gift ...og ekki bara einhverjum!
Mér er sko alveg sama hverjum hún er gift. Nákvæmlega eins og mér kemur ekkert við hvað konur skattakónganna heita. Hvað á þetta eiginlega að þýða?
Bloggar | 31.7.2007 | 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er löt við að blogga eins og ég er löt við allt annað þessa dagana.
Hef verið ,,klukkuð" af Hadda Ásgeirs og læt hér því fylgja 8 staðreyndir um mig, misþekktar.
- Fyrsta minningin er af stofugólfinu heima á Hjarðarholti 8. Valgeir bróðir var pínulítill og ég sennilega þriggja ára.
- Fyrsta barnapían mín var líklega Kjartan Ólafsson alþingismaður. Við bjuggum í kjallaranum á Hlöðum þar til ég var tveggja ára og Kjartan var tíður gestur hjá okkur. Honum tókst samt ekki nógu vel til með pólitíska uppeldið
- Fyrsti kennarinn minn var Iðunn Gísladóttir sem kenndi mér í ,,stubbadeild". Hún og Vigdís Guðmundsdóttir sem kenndi mér í 1.-3.bekk eru fyrirmyndarkennarar og vafalaust stærstu áhrifavaldarnir þegar kom að því að ég valdi mér lífsstarf.
- Fyrsti kossinn (svona alvöru meina ég!) var kysstur í gamla Selfossbíói
- Fyrsta heimilið mitt var sem fyrr segir að Hlöðum á Selfossi, en fyrsta sjálfstæða heimilið mitt stofnaði ég með Kollu vinkonu um áramótin ´84-´85 að Lokastíg 24 í Reykjavík. Veturinn eftir bjó ég svo að Aragötu 15 með Betu vinkonu í kjallaranum hjá sr. Óskari J og frú Elísabetu. Þessir tveir vetur eru ógleymanlegir
- Fyrsti sopinn var ekki góður! Það var Blue Nun hvítvín og var drukkið fyrr á lífsleiðinni en ég hefði óskað mér í dag. Hins vegar hafði það engar alvarlegar afleiðingar og ég ánetjaðist ekki hvítvíni þó mér þyki það ágætt í dag.
- Fyrsta ástin var ekki endurgoldin en varði býsna lengi. Man einhver hvað ég var í mörg ár skotin í honum? Ha...munið þið ekki hver það var? OK...vísbending: ef ég hefði gifst honum væri ég sennilega bóndi norður í Skagafirði!!
- Fyrsti einsöngurinn var sunginn með kór Gagnfræðaskólans á Selfossi þegar ég var í 8. eða 9.bekk. Lagið var Hinsta bón blökkukonunnar eftir Gylfa Ægisson. Algjör söksess
Þetta var gaman. Hefði getað sagt ykkur miklu meira um mig en ákvað að hafa þemað Fyrsta eitthvað. Fyrsta vinkonan, fyrsta sveitaballið, fyrsta starfið, fyrsti kærastinn, fyrsta barnið, fyrsta sorgin.......þetta bíður betri tíma.
Ég klukka: Nínu, Vigni, Þórhildi Helgu, Magnþóru, Daníel Hauk, Kristrúnu, Siggu Guðna og Gunnu ef hún er ekki búin að svara ,,klukki" sr.Baldurs
Bloggar | 25.7.2007 | 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hélt bara að það ætlaði ekki að stytta upp í dag....búið að rigna síðan í nótt
Þetta getur nú verið þreytandi!
Bloggar | 19.7.2007 | 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þessa sætu mynd tók ég af Jakobi Unnari og Telmu Sif um daginn þegar við heimsóttum fjölskyldu hennar í sumarbústað í Grímsnesi. Ég set hana hér inn í tilefni af því að nú höfum við fengið boðskort í brúðkaup þeirra Svövu og Jónasar (bróður Sigga). Frá fyrstu kynnum okkar við Svövu og Telmu hafa þær verið okkur mjög kærar og því gleðjumst við innilega yfir því að brúðkaup skuli vera framundan. Jakob Unnar og Telma Sif eru mjög góðir vinir og í raun ótrúlegt hve vel þau ,,smullu saman" frá upphafi. Krúttlegir krakkar!
Bloggar | 19.7.2007 | 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér á landi dvelur nú fjölskyldan sem ég var hjá í Danmörku fyrir 21 ári síðan. Þá passaði ég litla drenginn Andreas (Þá eins árs, nú 22 ára), tíndi jarðarber og málaði gluggana á búgarðinum þeirra. Þau eru hætt búskap fyrir margt löngu og flutt til Odense. Þau hafa ferðast um allan heiminn, Bandaríkin þver og endilöng, Kína og Víetnam svo eitthvað sé nefnt. Og þetta sumarið varð Ísland fyrir valinu. Þau dvöldu hjá okkur fyrstu fjóra dagana og skruppu m.a. til Vestmannaeyja. 'Eg fór með þeim á Þingvöll, Geysi og Gullfoss og nú eru þau á ferð um landið, voru t.d. við Mývatn í dag.
Það er skemmst frá því að segja að þau eru hugfangin af landinu. Veðrið hefur líka leikið við þau...og þeim finnst bókstaflega allt fallegt. Það finnst mér gaman.
Ég set hér inn mynd af þessari glaðlegu fjölskyldu sem er mér svo kær, þrátt fyrir að ég hitti þau nú einungis í þriðja sinn síðan ég dvaldi hjá þeim. Því miður komst yngri sonurinn, Philip, ekki með í þetta sinn...en hann verður örugglega drifinn með næst!
Bloggar | 16.7.2007 | 23:45 (breytt kl. 23:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um helgina fórum við í hina árlegu og ómissandi Söngfélagsútilegu. Fremur fámennt var þetta árið en engu að síður var mjög skemmtilegt og yndislegt veður. Hápunktur útilegunnar fyrir okkar fjölskyldu var tveggja ára afmæli Auðar Magneu. Við héldum veislu fyrir alla sem voru á okkar svæði þannig að úr varð hið besta afmæli, með pökkum, blöðrum, kökum og kátu fólki.
Þrjár myndir fylgja hér með. Ein af afmæliskaffiborðinu, önnur af afmælisbarninu að opna pakka með aðstoð stóru systur og sú síðasta ,,týpísk" Söngfélagsmynd tekin við brennuna á Álfaskeiði. Okkar menn héldu uppi söngstemningunni eins og vanalega og eins og sjá má skemmtir fólk sér konunglega. Skyldi engan undra, veðrið dásamlegt, umhverfið yndislegt og félagsskapurinn frábær!
Bloggar | 9.7.2007 | 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar