Færsluflokkur: Bloggar

Tókst ekki :-(

Það tókst ekki að fella ríkisstjórnina í þetta sinn. Ég er bara farin að halda að íslenskri þjóð finnist bara allt í lagi með allt. Hún virðist að minnsta kosti ekki tilbúin til að hleypa ferskum vindum inn um gluggann hjá sér.

Vonbrigði.

Ég var sérstaklega vonsvikin yfir þessu í úrslitum kosninganna:

  • ríkisstjórnin hélt velli
  • Samfylkingin tapaði fylgi frá síðustu kosningum (þó betur hafi farið en á horfðist um tíma)
  • Frábær þingmannsefni og þingmenn fengu ekki ,,séns"; Róbert Marshall, Guðný Hrund,  Guðmundur Steingrímsson, Mörður Árnason
  • Framsókn á enn möguleika á að sitja í ríkisstjórn þrátt fyrir að hafa beðið afhroð í kosningunum og hafa marglýst því yfir að ef illa gengi vikju þeir úr stjórninni. Það er  bara ekkert að marka þetta fólk...
  • Ólíklegt að Ingibjörg Sólrún verði forsætisráðherra þrátt fyrir augljósa hæfileika og löngu tímabæra tilbreytingu í því ráðuneyti. Það þarf að komast kona þangað hið fyrsta... og akkúrat þessi kona.

Ég er tapari. Mitt lið tapar alltaf í kosningum. Þess vegna hef ég hugleitt að fórna prinsippunum og ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Þá færi hann kannski að tapa Angry


Alþingiskosningar á morgun

Merkilegur dagur á morgun. Ég flagga í fyrramálið og á meðan ég dreg fánann að húni óska ég þess að dagurinn verði íslenskri þjóð til farsældar. Ég vona Íslendingar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að nýjar áherslur hljóti brautargengi í stjórnkerfinu. Við þurfum nýja ríkisstjórn. Nýtt blóð. Nýjar hugmyndir. Nýtt fólk.

Samfylkingin teflir fram öflugu ungu fólki í öllum kjördæmum. Ég er ekki að gera lítið úr reynslu fólks og ég ber virðingu fyrir mér eldra fólki. En á Alþingi þarf að breyta eitthvað til....ha?

Ekki satt?

X-S...........þar sem pólitíkin snýst um fólk- allt fólk.


Símtal

Sissa: Halló

Maður: Já hver er þetta?

Sissa: Sigþrúður heiti ég

Maður: Nei, HVAR er þetta?

Sissa: Í Þorlákshöfn

Maður: Nú....

Sissa: Hvert ætlaðir þú að hringja, með leyfi

Maður: Er þetta ekki á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins?

Sissa: (Hlær hátt og taugaveiklað) Nehehei....ertu að gera grín að mér?

Maður: (Pirraður) NeiAngry....Fyrirgefðu


Sæt eins og pabbi....

...og reyndar mamma.

Spái því að hún verði látin heita Margrét Ingiríður Þórhildur Wink


mbl.is Danska konungsfjölskyldan birtir myndir af nýju prinsessunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr menntamálaráðherra

Ég vona að þessi maður verði menntamálaráðherra í næstu ríkisstjórn. Hann er lang frambærilegastur í það ....að mínu mati.  Færsla dagsins í dag hjá honum vekur góðar vonir um bætt menntakerfi á Íslandi og betri aðbúnað fyrir fjölbreytta menntun á öllum skólastigum.

Draumfarir

Mig dreymdi draum. Ég vil túlka hann m.t.t. komandi kosninga í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi. Fannst hann því miður ekki geta átt við landið allt.

Úrslitin í Suðurkjördæmi verða svona samkvæmt draumförum Sigþrúðar:

Samfylking: 31 %

Sjálfstæðisflokkur: 37 %

Framsókn: 15 %

Vinstri græn: 11 %

Frjálslyndir: 6 %

Sjáum hvað setur Sleeping


Þrenna!

Langt síðan maður hefur náð þrennu!

Fimmtudagur: Samfylkingarkvennakvöld - ótrúlega skemmtilegt að koma aftur í Inghól!Grin

Föstudagur: Nágrannaheimsókn á ljúfum nótum...alltof sjaldan sem fólk ,,kíkir í hús"Wink

Laugardagur: Ómótstæðilegur matur í boði góðra vina.Tounge

Ekki furða þó sunnudagurinn hafi verið tekinn rólega! Seldum reyndar tjaldvagninn þann daginn Smile


Vinafundur

Við hittumst hér í Höfninni í gær vinahópurinn minn ,,úr bænum" eins og ég kalla hann. Þetta eru ,,krakkar" sem ég kynntist á námsárunum (sem sagt fyrir rúmum 20 árum) og þegar við erum spurð hvernig við þekkjumst getum við ekki svarað því. Það er svo flókið hver kynntist hverjum í gegnum hvern...að við reynum bara ekkert að útskýra það. Við erum bara vinir.

Á þessum árum sem liðin eru hefur hópurinn stækkað. Fjögur okkar hafa eignast maka og samtals eigum við 11 börn og ein okkar er orðin amma Smile Í gær voru níu afkomendur með í veislunni. Það er því mikil breyting á lífi okkar frá því á áhyggjulausum háskólaárunum! En við breytumst ekkert! Dags daglega höfumst við ólíkt að en það breytir ekki því að samverustundirnar eru alltaf jafn yndislegar. Umræðuefnin skortir aldrei...ó, nei, öðru nær. Frekar ,,keppni um að koma sér að" eins og skáldið orti!  Í gær vantaði bara sjómanninn, háskólanemann og fjölskylduna kæru sem býr í Japan. Þau mæta næst!

Kæru vinir. Takk fyrir gærkvöldið.


Ég segi upp...

...eftir fjögur kjörtímabil í kirkjunni. Það er mín skoðun að það sé ekki gott að vera of lengi við stjórnvölin og þegar ég uppgötvaði að ég hafði stýrt sunnudagaskólanum í kirkjunni minni í 16 ár ákvað ég að nóg væri komið. Ég fór sem sagt í dag í síðustu vorferð mína sem sunnudagaskólakennari og það var skrýtin tilfinning. Pínu tregablandin en samt góð.

Tíminn í kirkjunni hefur verið skemmtilegur tími og eins og ég sagði í uppsagnarbréfinu til sóknarnefndar:

 

....hefur verið ákaflega ánægjulegt starf fyrir mig sem kennara og uppalanda. Einnig hefur það gefið trúarlífi mínu nýja vídd sem ég er glöð að hafa fengið tækifæri til að kynnast.

og

Von mín er sú að barnastarf kirkjunnar eigi eftir að blómstra hér eftir sem hingað til. Fátt er fólki dýrmætara en góðar minningar frá bernskuárunum og sá grunnur sem sunnudagaskólinn veitir í trúarlífi einstaklings reynist oft haldreipi á erfiðum stundum fullorðinsáranna. Það veit ég af eigin raun og margra annarra.

Næst fer ég bara í sunnudagaskólann sem mamma. Það verður líka gaman!

Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka mig sér til fyrirmyndar eftir fjögurra kjörtímabila setu í ríkisstjórn. Ég meina það....við erum orðin þreytt....GEFUM ÖÐRUM SJENS!


Afi og amma á leiðinni

Nú eru afi og amma á Akureyri á leiðinni suður. Þau koma til okkar seinnipartinn í dag (seinkaði vegna umferðaróhapps á Öxnadalsheiði). Það ríkir alltaf nokkur eftirvænting á heimilinu þegar þessir góðu gestir eru væntanlegir því við hittumst ekki svo oft. Börnin bíða spennt og afi og amma líka! Jakob og Unnur (sem sagt afi og amma)  eru á leið í utanlandsferð, ætla að skoða Þýskaland og Ítalíu undir leiðsögn Hófíar vinkonu okkar í Skálholti. Þau verða örugglega ekki svikin af leiðsögumanninum og Ítalía getur varla klikkaðCool

Ég læt hér fylgja mynd sem tekin var af börnum mínum og tengdaforeldrum á pallinum þeirra í fyrra.

Með afa og ömmu

Auður Magnea hefur breyst mest, eðli málsins samkvæmt. Jakob Unnar og Ólöf Björk hafa auðvitað stækkað svolítið en þau hin eru alltaf eins! Þau hafa nú verið tengdaforeldrar mínir í næstum 20 ár...og ég hefði ekki getað valið betur. Þau hafa verið mér sem aðrir foreldrar og góðir vinir allan tímann og aldrei borið skugga á.  Það er ekki sjálfsagt mál og í raun og veru algjör happdrættisvinningur!

Ég vona að okkur verði gefin saman löng og farsæl framtíð Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband