Færsluflokkur: Bloggar
Þessi vinur okkar, veiðifélagi og Söngfélagi hlaut í dag Menningarverðlaun Ölfuss 2007. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og voru nú veitt í annað sinn. Jónas Ingimundarson var fyrsti verðlaunahafinn.
Róbert Darling á titilinn sannarlega skilinn, svo djúp spor hefur hann markað í menningarlíf sveitarfélagsins okkar á liðnum árum og áratugum. Margir aðrir koma vissulega til greina...en hans tími var núna.
Athöfnin í Ráðhúsinu í dag var hátíðleg og frábært að fyrstu lúðrarsveitarfélagarnir skyldu ná að koma saman og spila fyrir hann og með honum við athöfnina.
Nú er Róbert á leið til Frakklands með Kammerkór Suðurlands. Ég óska honum og kórnum góðrar ferðar með von um að þeim gangi vel að flytja sunnlenska menningu suður til Evrópu. Það er sérstaklega gaman að segja frá því að við Ölfusingar eigum fimm kórfélaga í þessum frábæra kór...og eiginlega sex, því hversu mikið eigum við ekki í honum Hilmari Erni kórstjóra?
Bloggar | 3.6.2007 | 22:01 (breytt kl. 22:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á þessari mínútu (kl.13.30) fyrir 12 árum kom hún í heiminn! Frumburðurinn okkar sem svo lengi hafði verið beðið eftir. Síðan þá hefur tilvera hennar verið hamingja og gleði allra í fjölskyldunni. Hún var skírð á afmælisdegi mömmu 17.júní2005. Þá fékk hún nafnið Ólöf Björk í höfuðið á ömmunum báðum, Ólöfu og Unni Björk.
Til hamingju með daginn elsku stelpan mín.
Bloggar | 31.5.2007 | 13:38 (breytt kl. 22:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eins og allir vita er þessi árstími mjög svo annasamur á mínum vinnustað og þar með á heimilinu líka. Prófum er nú lokið hjá frumburðinum og Tónlistarskólanum hefur verið slitið. Téður frumburður spilaði á skólaslitum hans; lék raunar í þremur atriðum þar. Stóð sig eins og hetja og fékk frábærar einkunnir bæði fyrir hljóðfæraleik og tónfræði. Hefur nú lokið grunnprófi. Svo er að sjá hvort hinar hefðbundnu grunnskólanámsgreinar hafa gengið eins vel. Nú er hún hins vegar farin í sauðburð í sveitinni og ræður sér ekki fyrir kæti.
Það er tímamótavor í fjölskyldunni. Jakob Unnar er að ljúka leikskólagöngu sinni nú á föstudag og örverpið Auður Magena hefur sína skólagöngu þar á mánudaginn. Eitt út, annað inn. SKipulagt hjá okkur hjónunum! Einkasonurinn byrjar svo í grunnskóla í haust og hlakkar mikið til.
12 ára afmæli Ólafar Bjarkar á fimmtudaginn, 31.maí og svo hefði pabbi orðið 80 ára á sunnudaginn, 3.júní. Hvort tveggja þarf auðvitað að halda upp á.
Vordaga-dagskrá framundan í skólanum og svo verða skólaslit nk. þriðjudag, 5. júní.
Og nú hlýnar. Það var ansi kalt í útilegunni sem við fórum í um helgina. Þá var nú gott að hafa réttu græjurnar! En við máttum til að skreppa eina nótt...allir spenntir, ekki síst þau yngstu.
Þessa dagana hugsa ég sterkt til þeirra sem hafa fengið yfirþyrmandi verkefni í lífinu. Ósanngjörn og erfið... Ég hugsa heim á Selfoss.
Bloggar | 29.5.2007 | 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
...þá er komin ný ríkisstjórn. Ég þarf aðeins að melta hana áður en ég tjái mig frekar. Er ánægð með að Björgvin fékk ráðuneyti, þó ég hefði viljað sjá hann með aðra lykla. Er líka mjög ánægð með Þórunni í ráðherraliðinu, hún hefur lengi verið uppáhaldsstjórnmálakona mín. Og Jóhanna er örugglega á réttum stað....
En nú er skoðanakönnunin úrelt....og lesendur höfðu ekki rétt fyrir sér. Björgvin varð ekki menntamálaráðherra, heldur Þorgerður Katrín (sem fékk reyndar næst flest atkvæði).
Bloggar | 22.5.2007 | 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Var að prófa að setja inn skoðanakönnun.
Skyldi hún virka?
Skoðið málið
Bloggar | 21.5.2007 | 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég hef nú verið viðskiptavinur Landsbankans í u.þ.b. 40 ár. Ekki svo sem stórtækur viðskiptavinur en þó með allt mitt þar og launin mín hafa rúllað þar í gegn frá upphafi. Ég hef svo sem ekkert nema gott um þessi viðskipti að segja, geri ekki miklar kröfur né heldur stend ég í neinum stórræðum á viðskiptasviðinu svo þetta er nú svona hlutlaust samband....þannig.
Eitt pirrar mig þó verulega.
Við hjónin höfum um nokkurra ára skeið verið í Vörðunni svokölluðu. Þar erum við með greiðsludreifingu og njótum svo einhverra fríðinda ss. með ferðapunktasöfnun og fleiru.
Og þá er komið að því sem pirrar mig. Þegar póstur kemur frá Vörðunni, þar sem tilkynnt er um nýja tegund fríðinda eða tilboða, er slíkt alltaf prentað á þvílíkan eðalpappír að ég bauð ekki fólki einu sinni í brúðkaupið mitt með slíkum fínheitum! Í dag, til að mynda, kom auglýsing um gjafabréf fyrir vildarpunkta í mörg hundruð gramma bæklingi. Ég bara get ekki samþykkt þetta. Af hverju í veröldinni var ekki hægt að senda mér þessar einföldu upplýsingar í tölvupósti. Eða bara á venjulegu A4 blaði? Er ekki hægt að nota peningana betur? Hvernig væri að lækka vextina í þessum annars ágæta banka?
Og hvað með trén? Litarefnin? Sorpið?
Ég verð bara að ræða þetta við hann Björgúlf.
Þetta er óþolandi
Bloggar | 21.5.2007 | 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andlitsmálun, hestar, smádýr, kórsöngur, pylsuveisla og síðast en ekki síst listaverk barnanna um allan skóla, glöddu gesti leikskólans þennan dag.
Vert er að þakka öllum hjartanlega fyrir komuna og vonandi hafa allir notið stundarinnar. Sérstakar þakkir fá hestapabbarnir, andlitsmálararnir, starfsfólkið sem aðstoðaði okkur og svo allir pabbar og mömmur sem komu að grillun og pylsuafgreiðslu.
Með vorhátíðinni lýkur vetrarstarfi Foreldrafélagsins þó börnin eigi eftir að fara í okkar boði í Töfragarðinn á Stokkseyri. Gaman, gaman.
Takk fyrir veturinn!
Bloggar | 21.5.2007 | 17:33 (breytt kl. 17:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miklar vangaveltur hafa verið uppi um nafn á tilvonandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Mér finnst nú nafnið aukaatriði, hef meiri áhyggjur af málefnasamningi flokkanna. En vangaveltur um nöfn eru alltaf skemmtilegar og finnst mér hugmynd Guðmundar Steingrímssonar Uppstigningarstjórnin, langbest. Fæðingin hófst jú á uppstigningardag. Önnur nöfn sem nefnd hafa verið: Þingvallastjórnin, Baugsstjórnin, Maí-stjórnin, RiseSSan....og örugglega einhver fleiri.
Ég held að skipting ráðuneyta verði með eftirfarandi hætti:
Forsætisráðuneyti: Geir H. Haarde
Fjármálaráðuneyti: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti: Jóhanna Sigurðardóttir
Menntamálaráðuneyti: Björgvin G. Sigurðsson
Utanríkisráðuneyti: Össur Skarphéðinsson
Félagsmálaráðuneyti: Þórunn Sveinbjarnardóttir
Atvinnumálaráðuneyti (Landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar): Árni M. Mathisen
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Samgönguráðuneyti: Kristján Þór Júlíusson
Umhverfisráðuneyti: (Sjálfstæðismenn verða að tefla fram fleiri konum....??????
Hvað segið þið? Hafið þið betri hugmyndir?
Bloggar | 20.5.2007 | 10:11 (breytt kl. 10:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Að mínu mati er þetta það besta í stöðunni. Að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum er ekki endilega það sem mig hefur dreymt um allt mitt líf, en eins og landslagið er núna í íslenskri pólitík held ég að þetta sé það besta fyrir land og þjóð.
Ég er líka, eins og allir aðrir, með í kollinum hvaða ráðuneyti mér finnst að eigi að fara á hvorn flokk...
Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 19.5.2007 | 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það var líka gleði hér um helgina. Krakkarnir í skólakórum Grunnskólans og Skólahljómsveit Tónlistarskólans settu með góðra manna hjálp upp söngleikinn ,,Líf og friður" í Versölum.
Sýningin var frábær og húsfyllir. Um 50 börn voru á sviðinu allan tímann og léku dýrin um borð í Örkinni hans Nóa. Ester, Gestur og Halldór stjórnuðu þessu öllu og fórst það vel úr hendi. Engin smá vinna að æfa þetta upp, búa til búninga, finna hlutverk handa öllum og koma þessu heim og saman.
Ég var stolt af mínu fólki á laugardaginn, bæði dóttur minni, hennar vinum og skólasystkinum og samstarfsfólki mínu sem leggur í svona verkefni aftur og aftur ... allt í þágu listarinnar og skemmtunarinnar.
Ólöf Björk lék asna og fór með heillanga rullu í því hlutverki. Hún spilaði líka á þverflautuna í hljómsveitinni og söng tvísöng með Kristrúnu vinkonu sinni. Eins og áður stóð hún sig eins og hetja.
Og hún er fjölhæf stelpan okkar. Á sunnudeginum tók hún þátt í innanfélagsmóti í fimleikum og kom heim með þrenn gullverðlaun fyrir keppni í 1. þrepi.
Um að gera að monta sig af þessu.... ekki get ég montað mig af pólitískum frama og velgengni!!!!
Bloggar | 14.5.2007 | 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar