Tilviljun aldarinnar!

Við hjónin fórum ásamt góðum vinum okkar, Ragnari og Jóhönnu, til Kaupmannahafnar um daginn. Ferðin var farin í tilefni af fertugsafmæli Sigga, enda höfðum við farið í margfræga ferð til London þegar við stöllur urðum fertugar.

Ferðin var frábær. Yndislegt veður og borgin falleg og skemmtileg sem fyrr. Við lögðum mikið upp úr því að velja góða  matsölustaði og borðuðum kínverskt, indverskt og ástralskt. Auðvitað var svo borðað smörrebröd á Vinstuen og glæsilegt var síldarhlaðborðið á Ferjukránni við Nýhöfn. Fórum í siglingu, skoðuðum Kristíaníu, fórum í Tívolí og gengum svo um miðbæinn og nutum lífsins.
Við bjuggum á Österbro, í íbúð Guðnýjar mágkonu minnar sem stödd var í Hong Kong á þessum tíma.

Þetta gat bara ekki verið betra. En ég varð fyrir ótrúlegri og merkilegri lífsreynslu á Ráðhústorginu. Á sunnudeginum þegar við vorum á leiðinni í Tívolí, stóð allt í einu fyrir framan mig manneskja á torginu, og horfði á mig hreinlega eins og hún hefði séð draug. Og það var kannski ekkert skrýtið. Hún hefði ekki orðið meira hissa þó hún hefði séð draug!

Þarna var komin Hjördis Mejborn, konan sem gisti hjá okkur þegar vinabæjarmótið var hjá okkur hér í Þorlákshöfn í vor. Við vissum hvorug að hin var í borginni en rákumst þarna saman, næstum í bókstaflegri merkingu. Hún kemur næstum aldrei til Kaupmannahafnar og var þar í fyrsta sinn án mannsins síns, enda var hún bara í skreppitúr að hitta vinkonu sína sem býr í Ameríku. Og ég í stuttri helgarferð.

Finnst ykkur þetta ekki merkilegt? Okkur þótti það báðum og í tilefni af endurfundunum og til að sanna mál okkar létum við Sigga taka þessa mynd af okkur. Báðar skellihlæjandi þó við vissumv varla hvort við áttum að hlæja eða gráta. Svo kátar vorum við yfir þessar stórsniðugu tilviljun.

Tilviljun aldarinnar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Fer þér vel þessi öllari góan !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 1.10.2007 kl. 17:54

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Ég elska sögur af svona ótrúlegum tilviljunum!!

Guðrún S Sigurðardóttir, 3.10.2007 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband