...óska ég vinum, ættingjum og öðrum velunnurum gleði og friðar.
Ég er að leita að rétta tímapunktinum til að byrja að blogga aftur.
Hann hlýtur að koma.
Bloggar | 12.1.2009 | 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég veit ekki hvort mér finnst langt eða stutt síðan...en það eru tvö ár í dag síðan hún Svandís Þula vinkona hans Jakobs Unnars fór frá okkur. Þegar sá atburður er rifjaður upp og það sem fjölskylda hennar hefur upplifað, virðast aðrir erfiðleikar hjóm eitt. Óskiljanlegt.
Til minningar um litla engilinn set inn myndina sætu af þeim skötuhjúum í fimm ára afmælinu hans 2.febrúar 2006.
Bloggar | 2.12.2008 | 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég fór í gærkvöld ásamt Menningarklúbbnum Jóhannesi Óla á leiksýninguna Fólkið í blokkinni í Borgarleikhúsinu. Ég hafði fengið misjafnar fregnir af stykkinu og dómarnir í blöðunum voru líka misgóðir. Ég fór því ekki með miklar væntingar af stað. En ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var bráðskemmtilegt leikrit, hress og skemmtileg tónlist og síðast en ekki síst frábær leikur. Verkið spannaði allan tilfinningaskalann (a.m.k. minn) og ég hló mikið, dansaði inni í mér með tónlistinni og svo grét ég líka svolítið. Hvað getur maður beðið um meira í einni leiksýningu.
Sannarlega góð leikhúsferð í góðra vina hópi.
Bloggar | 16.11.2008 | 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef áður tjáð mig um það hér hve gott það er að hefja vinnuvikuna eftir að hafa farið á góða tónleika á sunnudagskvöldi og það hef ég stundum gert. En síðasta sunnudagskvöld sló öll önnur út. Hún Sigríður Kjartansdóttir þverflautuleikari og vinkona mín hélt framhaldsprófstónleika sína í kirkjunni fyrir troðfullu húsi (200 manns) kl.18:00 á sunnudaginn - og sló alveg í gegn.
Hún hefur frá því ég kynntist henni glatt mig ótal sinnum með fögrum tónum og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Í gleði og sorg, lífi og leik hefur hún töfrað fram tónlist sem við á hverju sinni. Tónleikarnir á sunnudaginn tókust frábærlega. Hún spilaði metnaðarfull einleiksverk fyrir þverflautu við píanóundirleik Miklosar Dalmay og svo spilaði hún með því fólki sem henni er kærast ...Gesti, Kristrúnu og Bergrúnu. Að lokum lék hún pikkoloflautudúett með Pamelu DeSensi og Lúðrasveit Þorlákshafnar sem er HENNAR félagsskapur númer eitt, tvö og þrjú.
Ég veit það er þungu fargi af Siggu létt þegar þetta er frá...en hún á alla heimsins möguleika. Hún er hæfileikarík, músíkölsk, metnaðargjörn en síðast en ekki síst frábær fyrirmynd og kennari.
Til hamingju með áfangann elsku Sigga mín.
Bloggar | 11.11.2008 | 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég held að það sé líka komin kreppa í bloggið mitt. Gæti sam sagt frá því nú þegar vetur er formlega hafinn
- að við skruppum norður til tengdó í vetrarfríinu
- að það var harða vetur á Akureyri
- að við hittum nýjan væntanlegan fjölskyldumeðlim...loksins
- að við hjónin og örverpið fengum magapest í síðustu viku
- að Ólöf Björk og vinkonur hennar sigruðu söngvarakeppni hér í félagsmiðstöðinni og eru að fara að keppa á Selfossi um næstu helgi
- að foreldrahópur fimleikahópsins hennar ÓBS hélt kvenna-kaffihúsa-kynningardag á laugardaginn og gekk hann framar vonum
- að Jakob Unnar á kærustu
- að frystikistan er nú full af mat, búið að kaupa kjöt, taka slátur og kaupa helling af fiski
- að á þessu heimili ætlum við að takast á við veturinn með bros á vör þrátt fyrir allt og allt
Bloggar | 3.11.2008 | 21:58 (breytt kl. 22:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stjórn Starfsmannafélagasins okkar ákvað á dögunum að einu sinni í mánuði skyldu bornar fram kræsingar á starfsmannafundum. Starfsmannahópnum skipti í fernt og bakað til skiptis. Hópur eitt var með kaffið í dag og var hlaðborðið hið kræsilegasta.
Þó ég segi sjálf frá
Bloggar | 21.10.2008 | 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggar | 21.10.2008 | 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hrund systir sendi mér þennan boðskap. Ákvað að deila honum með ykkur.
Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.
Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.
Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.
Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.
Höfundur: Unnur Sólrún Bragadóttir
Bloggar | 15.10.2008 | 15:01 (breytt kl. 21:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
...hafa nú í næstum 20 ár verið algjörlega frátekin kvöld frá því hausta tekur og fram á vor. Það eru nefnilega kóræfingar á þriðjudagskvöldum. Í kvöld var samt frí vegna veikinda söngstjórans og ég vissi varla hvað ég átti af mér að gera. Heimilisskipulagið gerir ekki ráð fyrir mér heima þetta kvöld og sjónvarpsdagskráin er mér ókunnug (eins og reyndar flesta daga!). En þetta varð nú bara hið besta kvöld í faðmi fjölskyldunnar og fyrr en varir er klukkan orðin 11.
Ég ætla samt að halda áfram að eiga þriðjudagskvöld fyrir mig og kórinn minn. Mér finnst tímanum vel varið þannig og nýt þess að syngja í góðra vina hópi.
Bloggar | 14.10.2008 | 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég var að koma heim af frábærum tónleikum. Sigurður Flosason saxófónleikari og hljómsveit hans léku þar afslappaðan og þægilegan jass með blúsívafi. Ótrúlega notalegt í Versölum í kvöld. Sigurður er ekki einasta frábær tónlistarmaður heldur er hann svo skemmtilegur kynnir, tengir dagskrána saman með orðum á svo eðlilegan máta.
Ég vildi að ég hefði alltaf tækifæri til að byrja vikuna á góðum tónleikum. Fátt hressir sálartetur mitt betur en góð og vel flutt tónlist. Ég er samt engin sérstök jazzáhugakona, finnst bara gott að njóta vel fluttra tóna, næstum í hvaða mynd sem er.
Verst hvað margir misstu af þessu...fámennt í salnum. Fámennt...en góðmennt.
Bloggar | 12.10.2008 | 22:41 (breytt kl. 22:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar