Skólastjóraímynd

Það þarf ekki að velta lengi vöngum yfir því hvaða augum dóttir mín yngsta lítur skólastjóra. Í hennar huga er bara einn skólastjóri...SKÓLASTJÓRINN!  Það er auðvitað Halldór, þó hún þekki nú fleiri skólastjóra...en bara ekki í því samhengi...og Ásgerður leikskólastjóri er í hennar huga bara Ásgerður.

Samtal við morgunverðarborðið:

Mamma (við pabba): Ég þarf að vera mætt tímanlega í vinnuna á föstudaginn því ég verð skólastjóri og þarf kannski að redda forföllum eða öðru í morgunsárið.

Jakob: Af hverju verður þú skólastjóri mamma?

Mamma: Af því skólastjórarnir eru báðir á fundi á Akureyri og þeir báðu mig um að vera skólastjóri á meðan.

Jakob: Ókei...

Auður Magnea (mjög hugsi): Mamma, ef þú verður skólastjóri, hættir þú þá að vera mamma mín?

Ergo: Mömmur eru ekki skólastjórar.

Enn eitthvað klikk í uppeldinu...myndir þú ekki segja það Helga skólastýra?

 


Leið á lúðrum?

Lesendur mínir (þessir fáu sem ekki hafa gefist upp) eru vafalaust orðnir þreyttir á lúðrunum í síðasta bloggi.

Nenni samt ekki að blogga um efnahagsástandið.

 


Skært lúðrar hljóma!

Þetta var yfirskriftin á landsmóti lúðrasveita sem haldið var hér í Þorlákshöfn um helgina. Tónleikarnir í lok mótsins voru æðislegir...og ég hafði nú reyndar líka alveg húmor fyrir skrúðgöngunni sem fram fór í hverfinu mínu um fjögurleytið aðfaranótt sunnudags. Nenni nú ekki að pirra mig yfir hálftíma næturtruflun ...svona einu sinni. Þetta mót verður örugglega ekki haldið hér næstu 20 árin.  Hugsaði reyndar með mér þegar ég leit út um borðstofugluggann til að forvitnast um fjörið, að mér hefði örugglega ekki þótt verra að vera bara með !

Trompet


Afmælisbörn dagsins

Tveir af mínum bestu vinum eiga afmæli í dag. Jóhönnu Hjartardóttur hef ég þekkt síðan ég flutti hingað til Þorlákshafnar 1989. Hún hefur verið samkennari minn allar götur síðan eða þar til í sumar að hún fór til annarra starfa á sínum æskustöðvum í  Hveragerði. Jóhanna er kraftmikil og skemmtileg kona sem alltaf hefur nóg fyrir stafni. Hún er gift Ragnari Matthíasi vini okkar og eiga þau drengina Hjört, Baldur og Þorstein- alla öðlingspilta og mikla íþróttamenn. Þessi fjölskylda hefur nú verið hluti af lífi okkar í næstum 20 ár. Það er frábært.  Jóhanna er 44 ára í dag.

Kristján Þorbergsson er vinur minn frá námsárunum í Reykjavík. Ég hitti hann og fjölskyldu hans allt of sjaldan, en þegar við hittumst eigum við alltaf frábærar stundir. Skemmst er að minnast ógleymanlegarar helgar í Stykkishólmi  í ágúst. Kristján er fjármálastjóri hjá stóru fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, enda menntaður viðskiptafræðingur og með eindæmum talnaglöggur maður. Hann er nú sem betur fer klár á mörgum öðrum sviðum, því annars hefði ég ekkert til að tala um við hann!!! Kristján er giftur Þórunni Sigurðardóttur vinkonu okkar og eiga þau dæturnar Bryndísi Maríu, Bergrós og Sigrúnu Valdísi- yndislegar stelpur sem er margt til lista lagt. Kristján er 45 ára í dag.

Hér fylgja myndir af þessum góðu vinum og óska ég þeim hér meðinnilega til hamingju með daginn!

Jóhanna                       Kristján


Helgarþrenna

Það var þrennt sem gerði þessa helgi að sérstaklega góðri helgi.

Á föstudagskvöldið fórum við í Menningarklúbbnum Jóhann-essi í Borgarleikhúsið að sjá Fló á skinni. Það reyndist hin besta skemmtun og kvöldið gott í alla staði, því auðvitað fylgdi þessu matarinntaka og létt grín í marga klukkutíma. Nafnið á klúbbnum var ákveðið þetta kvöld, þótti vel við hæfi að nefna hann í höfuðið á stofnandanum Jóhönnu. Ekkert okkar mundi þá, að aðalpersónur leikritsins heita Jóhannes og Jóhann S, en eftir að það kom í ljós var nafnið endanlega staðfest þó ritháttur þess sé enn ekki alveg ákveðinnSmile

Laugardagurinn var ljúfur. Ég var ein heima til hádegis (það gerist næstum aldrei ), þar sem bóndinn fór að smala, Ólöf Björk í fimleika og yngri börnin voru í næturpössun á Selfossi vegna leikhúsferðarinnar. Ég fór svo á Selfoss um hádegisbil til að sækja þau og dvaldi daglangt á æskustöðvum. Það er alltaf gott Wink. Hótel Mamma klikkaði ekki á veitingunum og svo var ég svo heppin að Brynja og Kári bróðurbörn mín voru þar í heimsókn líka ásamt móður sinni, svo við áttum öll gott spjall og samveru. Ljúft.

Í dag var svo nokkuð stór dagur í lífi fjölskyldunnar. Upphaf fermingarfræðslunnar í Þorlákskirkju var markað með guðsþjónustu sem við mæðgurnar sóttum. Fermingarbarnið tilvonandi hafði að vísu farið um morguninn með litlu systur í sunnudagaskólann svo það má segja að hún hafi tekið þetta með trompi frá upphafi! Reyndar hefur hún Ólöf Björk blessunin sinnt kirkjustarfi betur en flestir bæjarbúar þó eldri séu, því hún fylgdi mér í næstum hvern einasta sunnudagaskóla frá tveggja ára aldri og sló ekki slöku við fyrr en í hitteðfyrra. Henni líður vel í kirkjunni sinni og þótti gott að koma aftur í sunnudagaskólann. Mér líður líka alltaf vel í kirkjuna og þykir gott og gaman að fara í messu.  Ég hlakka til að fara með dótturinni í gegnum það skemmtilega ferli sem fermingarfræðslan og fermingin er.

Sem sagt fjölbreytt og skemmtileg helgi senn á enda runnin. Vona að vikan verði góð Whistling


Afmælismánuður

Siggi lítil mynd

Ég hef ekki gefið mér tíma til að blogga síðustu daga og þar með varð afmælisdagur húsbóndans útundan sem bloggdagur. Hér með bæti ég fyrir það og óska honum innilega til hamingju með daginn um leið og ég birti af honum mynd þessari elsku. Hann er svo mikið fyrir að ota sínum tota!!

Margir afmælisdagar hafa liðið hjá og þann 14. áttu auk Sigga afmæli þeir Þórarinn Guðnason æskuvinur minn, Áskell Bjarnason eldri, Jóhannes heitinn Bjarnason gamall og góður vinur, Iðunn Ösp Rannveigar og Kjartansdóttir og síðast en ekki síst skólastýran í Lundaskóla á Akureyri frú Þórhildur Helga.

Halli, Viggi, Sunna Björk, Guðmundur Örn, Hemmi frændi, Valli bróðir, Simmi Karls og fleiri ættingjar og vinir eiga afmæli í þessum góða mánuði  og sendi ég hér með afmæliskveðjur til þeirra allra.

 


Komið til mín....

BogmaðurBogmaður: Þú ert ávallt viðbúinn. Þú vilt ætíð leggja þitt af mörkum. Þú brosir og tekur í hendurnar á öllum. Brátt verða ókunnugir bestu vinir þínir.

Minningabók

Ég reikna með að flestar stelpur amk hafi átt minningabók á yngri árum. Mamma kom um helgina með síðasta kassann minn úr bílskúrnum á Hjarðarholtinu (þeir eru búnir að tínast til mín einn af öðrum í 24 ár!). Í þessum kassa voru miklar gersemar; námsbækur frá 5.-8. bekkjar, stílabækur alls konar og vinnubækur. Og svo minnningabók. Þvílíkur dýrgripur. Þar má finna mörg fleyg orð og heillaóskir skrifuð á árunum 1973-74. Skulu hér tekin nokkur dæmi:

Hafdís Nína skrifaði: Lifðu á dýnu en ekki hjá Línu og Hæ hæ og hó hó - en hvað þú ert mjó  (Ekki alveg staðreynd í dag)!

Lóló skrifaði: Mundu þetta mundu hitt - mundu alltaf nafnið mitt (Lóló heitir Sólveig Ósk en því var ég næstum búin að gleyma!)

Halldóra Kára skrifaði: Mundu bæði vel og lengi að kyssa aldrei skóladrengi (Þessu fór ég aldrei eftir- munið þið hvar ég kynntist Sigga?)

Dagný Jóns skrifaði: Lifðu í ljósi en ekki í fjósi (Og ég sem ætlaði að verða bóndi)

Fríða skrifaði: Sofðu til fóta en ekki hjá Tóta (Þessu hlýddi ég)

Magga Beta skrifaði: Sissa skvísa en ekki ýsa (Sjúkk!)

Jóhanna Kára skrifaði: Aldrei skaltu nota púður, aldrei skaltu reka fíla og aldrei kyssa stráka í bíl ( Nei...ekkert af þessu hef ég gert!)

Kolla Kára skrifaði: Sigþrúður með úfinn rass...rekur við og segir pass (Stórkostleg lýsing!)

Gulli Óttars skrifaði: Þegar Sissa sá hann Sissa þá fór hún að pissa (Fleyg orð og frumleg...en Sissi var nú reyndar einn bekkjarfélaginn og svo sætur að maður gat nú alveg pissað á sig!)

Rúnar Guðjóns skrifaði: Lifðu á teppi en ekki á Kleppi (Nei...heppin að sleppa við það)

Margt, margt fleira stendur í þessu merka riti og það sem hér er að ofan er ekki allt með upprunalegri stafsetningu :-)  Næstum á hverri einustu blaðsíðu er ritað: MUNDU MIG, ÉG MAN ÞIG. Og tilfellið er að ég man vel eftir öllum þessum krökkum og vonandi muna þau líka eftir mér. Minnngabækur eru góðar bækur


Eitthvað andleysi...

...eða kannski annir valda því að ég kem engu hér á blað.

Gæti samt skrifað um svo margt sem ég er búin að vera að ,,bardúsa og spekúlera" undanfarið:

  • skólinn kominn á fullt og nóg um að hugsa þar að vanda
  • óvenjumargar veislur að sækja og ótrúlega skemmtilegar
  • vangaveltur um nöfn
  • ólympíuleikar
  • vinna við herbergjaflutning barnanna
  • vangaveltur um fyrirhugaða, hugsanlega líkamsrækt vetrarins
  • textagerð og söngæfingar í göfgandi tilgangi
  • bæjarferð með unglinginn minn
  • bilaður bakaraofn pirrar heimilisfólk

 


Til hamingju...

....Þórir og allar stelpurnar þínar Smile.

Frábær árangur hjá þessu stórkostlega liði! Og annað ólympíugullið sem Selfyssingar landa á þessum leikum! Húrra!Wizard


mbl.is Norðmenn ólympíumeistarar í handbolta kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband