Ég fór í Kjarval í gær. Hitti þar einungis stráka við störf. Atli Freyr og Unnar Már voru þar við afgreiðslu og áfyllingar, álengdar var verslunarstjórinn Lárus í einhverjum reddingum. Semsagt þrír karlmenn að vinna og engin kona sjáanleg.
Mér varð á orði að það eru breyttir tímar í verlsun á Íslandi. Sú var tíðin að konur afgreiddu mat og fylltu á mjólkurkæla í matvöruverslunum. Jafnréttið tekur á sig nýjar myndir á hverjum degi og eitthvað þokast á flestum sviðum. Er það ekki?
Bloggar | 3.7.2007 | 12:43 (breytt kl. 12:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eftir tölvuvandræði á heimilinu kem ég hér aftur og blogga sem aldrei fyrr!
Mig langar að segja ykkur frá tveimur viðburðum í lífi fjölskyldunnar í liðinni viku.
Sá fyrrnefndi er leiðinlegur Auður Magnea fór í nefkirtlatöku og sett voru rör í eyrun. Aðgerðin virðist hafa gengið vel, hún er a.m.k. hætt að vakna 20 sinnum á nóttu! Vaknar bara þrisvar
Hinn viðburðurinn er öllu gleðilegri. Við höfum nefnilega haft danska gesti á heimilinu í fjóra daga, í tenglsum við norrænt vinabæjarmót sem haldið var hér í sveitarfélaginu frá miðvikudegi til sunnudags. Ég ákvað strax að bjóða gistingu fyrir tvo Dani, leit á það sem frábært tækifæri til að æfa mig í dönskunni minni og ekki síður að kynnast fleiri Dönum. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Fengum yndisleg hjón, rúmlega sextug, sem voru eins og þau hefðu alltaf þekkt okkur. Litla manneskjan var meira að segja farin að kalla þau ömmu og afa áður en fyrsta kvöldið var liðið. Dagskrá gestanna var þéttskipuð þannig að við hittum þau bara í mýflugumynd á morgnana og svo svolitla stund á kvöldin. Allt gekk vel og Hjördis og Jörn Majborn eru nýju dönsku vinirnir okkar!
Í næstu viku koma svo Annette, Lars og Andreas Pilekjær, en þau voru húsráðendur mínir þegar ég var í Danmörku sumarið 1986! Loksins ætla þau að drífa sig til Íslands og ég get ekki beðið eftir að hitta þá yndislegu fjölskyldu.
En Hjördis og Jörn eru á meðfylgjandi mynd ásamt börnunum okkar.
Bloggar | 3.7.2007 | 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það sem fram kemur í þessari frétt eru nú þekkt sannindi! Til heiðurs yngri systkinum mínum set ég hér inn mynd af okkur, tekna á jólum 2006 í sófanum hjá mömmu.
Elsta systkinið gáfaðast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 26.6.2007 | 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eftir nýliðna helgi freistast ég til að leita í þennan gamla málshátt og trúa því að speki hans sé endanleg og rétt.
Eins og áður er getið hér létum við hjónin verða af því í vor að kaupa fellihýsi fyrir sumarferðir fjölskyldunnar. Við gerðum góð kaup (það gera nú reyndar allir!!!) og erum alsæl með gripinn. Hins vegar hefur þetta ekki farið vel af stað. Við fórum í fyrstu útileguna um hvítasunnuna í skítakulda og þá lentum við í basli með að tengja gasið. Heljarinnar bras sem endaði með því að kaupa þurfti nýjan gaskút. Þá var reyndar allt í fína og útilegan gekk eins og í sögu.
Á föstudaginn síðasta var hugmyndin að fara í útilegu númer tvö. Allt klárt um hádegi og ekkert eftir nema tengja aftan í. Þá lentum við í brasi með að koma ,,nefhjólinu" upp og nenni ég ekki að orðlengja það, nema hvað Siggi endaði með stykkið niðri í vélsmiðju þar sem því var reddað.
Þá var ekið sem leið lá austur að Laugalandi í Holtum, hvar nokkrar fjölskyldur höfðu mælt sér mót. Við vorum komin um fimmleytið og ekki eftir neinu að bíða með að tjalda. Þegar Siggi sneri sveifinni sem á að lyfta tjaldinu gerðist hins vegar ekki neitt öðru megin. Þegar betur var að gáð var vírinn sem hífir og heldur tjaldinu slitinn. Ekkert hægt að gera á staðnum og því haldið heim á leið. Bömmer!
Við hjónin tókum þessu svo sem með jafnaðargeði en þetta var erfitt fyrir börnin. Ólöf Björk fékk að vísu inni hjá góðu fólki og varð eftir, en Jakob Unnar var ekki kátur Úr því rættist þó þegar okkur var boðið í bústað til Jónasar og Svövu og hann fékk að gista hjá Thelmu Sif frænku sinni. Á sunnudaginn fórum við svo í Holtakot til Valgeirs og Siggu og þar fór hann á hestbak með Brynju og var alsæll. Úr ósköpunum rættist sem sagt, helgin var fín og vonandi að hamfarir fellihýsisins séu að baki og það reynist okkur heillagripur hinn mesti Það er allavega eins gott að hægt verði að bjarga málum fyrir Söngfélagsútileguna eftir hálfan mánuð...
Bloggar | 25.6.2007 | 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég var eitthvað orðin leið á gamla útliti síðunnar og set hér nýtt inn til reynslu.
Eins og glöggir lesendur taka eftir er hér líka listi yfir bloggvini. Þetta er allt öndvegisfólk sem hefur óskað eftir að gerast bloggvinir mínir og mér er sönn ánægja að tengjast. Nú eru fleiri sem ég vildi gjarnan setja hér inn....en kann ekki. Nenni samt ekki að hafa lista með 100 myndum eins og sumir gera en gaman að hafa þá sem ég les oft og sem kíkja hingað.
HJÁLP!
Bloggar | 21.6.2007 | 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veðrið lék við landsmenn í gær á þjóðhátíðardeginum. Það var yndislegt að hátíðarhöldin hér í Þorlákshöfn skyldu vera í Skrúðgarðinum, alltaf gaman að halda daginn hátíðlegan utan dyra. Konur voru í algjöru aðalhlutverki svo lengi sem ég fylgdist með dagskránni.
Fyrir skrúðgöngunni fóru fjórar föngulegar fimleikastúlkur sem báru þjóðfánann og gengu í takt við kraftmikinn lúðrablástur Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Þar voru að vísu nokkrir ágætir karlar að spila (!) en líka frábærar konur. Sigga, Jenný, Aðalbjörg, Rakel, Helga, Hulda, Ágústa, Ása Berglind...og kannski fleiri. Þegar komið var í Skrúðgarðinn sté kynnirinn á stokk; Ásta Margrét Grétarsdóttir og kynnti til sögunnar forseta bæjarstjórnar Birnu Borg Sigurgeirsdóttur. Þessar tvær inntu sitt hlutverk skörulega af hendi og var ávarp Birnu hvetjandi og kröftugt. Ræðumaður dagsins var fyrrum nemandi okkar úr Grunnskólanum og nú hápólitískur háskólastúdent; Kristrún Elsa Harðardóttir. Hún gekk í sinni ræðu út frá því hve lánsöm við erum að hafa fæðst á Íslandi. Kristrún flutti mál sitt af miklu öryggi og ekki hefur henni farið aftur í meðferð íslenskrar tungu stelpunni síðan um árið! Hápunktur hátíðahaldanna ár hvert er í mínum huga ávarp fjallkonunnar. Það flutti að þessu sinni annar fyrrum nemandi Ingunn Helgadóttir. Hún hefur dvalið um lengri og skemmri tíma fjarri heimahögum, einkum í Asíu og því fór vel á því að hún flytti ljóð Stephans G. Þótt þú langförull legðir/ sérhvert land undir fót.... Ingunn flutti ljóðið fallega og var sjálf afar glæsileg. Nýstúdentarnir sem báru fánann með fjallkonunni voru líka ungar og glæsilegar konur; Júlíana Ármannsdóttir og Margrét Róbertsdóttir en mér er sönn ánægja að geta þess að þær eru báðar úr gamla bekknum ,,mínum" sem ég kenndi sem lengst! Það gladdi því sérstaklega mitt viðkvæma kennarahjarta að horfa á þær við þessar hátíðlegu og virðulegu aðstæður.
Eftir þetta stigu á stokk fjórar ungar söngkonur, Nylon. Þar sem við vorum á leið á Selfoss létum við það atriði fram hjá okkur fara en eins og sjá má af þessari upptalningu má með sanni segja að konur hafi leikið stórt hlutverk í hátíðahöldunum, a.m.k. fyrri hluta dags.
Fjallkonan verður nú reyndar alltafað vera kona.....ekki satt?
Bloggar | 18.6.2007 | 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleðilega þjóðhátíð!
Þegar ég var barn hélt ég að hátíðahöldin sem voru og eru á 17.júní væru vegna afmælis móður minnar. Hún er einmitt afmælisbarn dagsins...verður 64 ára í dag.
Af því tilefni set ég hér inn mynd af henni ásamt Hrund systur sem útskrifaðist sem sérkennari í gær og með þeim á myndinni er Sigga mágkona. Þær eru ótrúlega þjóðlegar á þessari mynd, sem tekin var á fermingardegi Brynju. Því þótti mér tilvalið að nota myndina í færslu dagsins.
Til hamingju með afmælið elsku mamma, til hamingju með útskriftina elsku Hrund og til hamingju allar með þjóðhátíðardaginn!
Bloggar | 17.6.2007 | 11:32 (breytt 18.6.2007 kl. 18:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
...sagði eldri dóttirin þegar hún hringdi áðan úr sveitinni á leið til Þorlákshafnar. Móðirin varð hin glaðasta þegar barnið sagðist vera að koma heim....en nei....þetta er bara svona kurteisisheimsókn. Fer maður í heimsókn heim til sín?
Annars er þessi sveitadvöl þeirra vinkvenna dásamleg. Þær voru yndislega eðlilegar í gúmmítúttunum, ullarsokkunum og blóðugum peysunum á sunnudaginn þegar við fórum þangað ,,í kurteisisheimsókn". Vildi að ég hefði munað eftir myndavélinni. Stórbændurnir í Flögu höfðu nýlokið við að marka síðustu lömbin og þær auðvitað hrærst í því eins og öllu hinu í sveitinni. En þær mega ekki vera að því að koma heim. Það á eftir að stinga út úr húsunum, reita arfa, planta trjám og svo bara leika sér og vera til. Þvílík forréttindi fyrir blessuð bæjarbörnin að upplifa þetta allt og svo endalaust frelsi og tímaleysi. Það er dásamlegt eftir þéttskipaða stundatöflu vetrarstarfsins.
Þær koma sem sagt ekki heim fyrr en eftir 17.júní mót Ungmennafélagsins Vöku. Það var svo geggjað í fyrra!
Bloggar | 14.6.2007 | 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er talsvert búið að ræða og jafnvel gera grín að Gísla Einarssyni síðan honum varð á í síðasta þætti Út og suður að geta þess að konan sem fjallað var um hefði aldrei kvænst. Það er vissulega málvenja að tala um að karlmenn kvænist og konur giftist.
En nú eru breyttir tímar. Má ekki með sanni segja að samkynhneigðar konur sem ganga í hjónaband séu kvæntar hvor annarri? Hefði Gísli ekki bara þurft að segja að konan hefði hvorki kvænst né gifst á lífsleiðinni? Ja, það er að mörgu að hyggja....
Bloggar | 13.6.2007 | 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt af því sem við hjónin erum ekki sammála um er áskrift MÍN að Sunnlenska. Siggi segir að það sé aldrei neitt í þessu blaði og væri þeim krónum sem áskriftin kostar betur varið í annað. Ég er algjörlega ósammála. Finnst blaðið meira að segja betra nú um stundir en oft áður. Og ég bara elska að lesa sunnlenskar fréttir. Selfysskar fréttir og slúður. Og margar góðar greinar og viðtöl, oft við fólk sem ég þekki. Það er gaman að lesa um fólk sem maður þekkir!
Í blaðinu sem ég fékk inn um lúguna í kvöld brá svo við að óvenju mikið var fjallað um fólk sem ég þekki... sem samt er ekki endileg ,,þekkt".
Á forsíðunni er mynd af Þorsteini Má Ragnars-og Jóhönnusyni í koddaslag á sjómannadaginn. Flottur!
Inni í blaðinu eru svo eftirfarandi ,,kunningjar" til umfjöllunar:
- Eygló Ida Gunnarsdóttir, nemandi í fyrsta bekknum sem ég kenndi á ferlinum austur á Kirkjubæjarklaustri. Hún var að gefa út ljóðabók og er að læra að verða kennari! Frábær stelpa Eygló, klár og skemmtileg.
- Róbert Darling var myndaður í bak og fyrir við afhendingun menningarverðlaunanna og er glæsilegur í ljósa sumarjakkanum sínum brosandi út að eyrum. Gaman hjá honum!
- Benni Thor var að hætta í sóknarnefnd og var að því tilefni heiðraður á aðalsafnaðarfundir. Séra Baldur skrifar um það og lætur fylgja þessa líka fínu mynd af Benna, sem söng bassann í eyrað á mér flest árin sem ég söng í kirkjunni. Karlkrúttið.
- Ögmundur Eiríksson frændi minn frá Gýgjarhólskoti er á ættfræðisíðu Bjarna Harðar vegna frábærs námsárangurs frá ML. Mjög skemmtileg og fróðleg samantekt hjá Bjarna, nema hvað honum hefur orðið alvarlega á í messunni þegar hann taldi saman systkinin frá Gýgjarhólskoti, afasystkini Ögmundar. Þar eru þau öll talin upp nema móðir mín, Ólöf, sem er yngst þeirra systkina og sú eina sem fædd er í Kotinu. Ekki líkt Bjarna að feila á svona löguðu .
- Hafsteinn Ásgeirsson kemst á síður Sunnlenska með bloggið sitt, enda beinskeyttur í garð bæjaryfirvalda vegna Feygingar. Alltaf gaman að lesa bloggið hans Hadda.
- Björgvin G. og Róbert Marshall eru þarna líka og ég freistast til að telja þá með kunningjunum eftir kosningabaráttuna í vor. Frábærir náungar og til alls líklegir...
- Selfyssingar af ýmsum stærðum og gerðum voru líka til umfjöllunar og mér finnst hún ofsalega flott hún Helga Höeg Sigurðardóttir frá Hæli í Hreppum,dúx úr FSu (náfrænka Harðar systursonar míns), því hún er svo fjölhæf og flink...en hún var einmitt Sunnlendingur vikunnar í þessu blaði.
Það var gaman að lesa Sunnlenska í kvöld!
Bloggar | 6.6.2007 | 22:48 (breytt 7.6.2007 kl. 13:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
Skemmtilegt lesefni
Tenglar
Heimasíður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar