Stolt og glöð

Við Þorlákshafnarbúar erum í senn þreyttir og glaðir þessa dagana. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var hér um verslunarmannahelgina á vegum HSK tókst í alla staði frábærlega vel og héðan fóru gestir með bros á vör. Ekki ætla ég að fara nákvæmlega í alla þætti, þessa upplifun skilur enginn nema vera á staðnum. 10.000 manns á fullu í marga sólarhringa við leik og skemmtun án áfengis. Það er einstaktSmile

Veðrið lék við okkur allan tímann.  Rigningarúði var að vísu á laugardagskvöldið en það skaðaði engan enda himnesk blíða daginn eftir og ekki kom dropi úr lofti þá, jafnvel þó rigndi eldi og brennisteini allt í kringum okkur.

Aðstaðan var frábær. Á elleftu stundu tókst að ljúka við íþróttamannvirkin sem hafa verið í byggingu hér í nokkra mánuði. Það var mál manna að sundlaugin, íþróttamiðstöðin og íþróttavöllurinn mynduðu heild sem telja má eina þá glæsilegustu á landinu...og þó víðar væri leitað. Golf, mótókross, knattspyrna og hestaíþróttir fóru líka fram á sérútbúnum svæðum sem voru til fyrirmyndar.  ,,Flottara en í Peking" sagði öldungurinn sem nýlega var kominn þaðan! Tjaldstæði voru búin til á gömlu flugbrautinni ,,úti í Nesi" og voru þau betri en nokkur þorði að vona. Einhver smávægileg vandkvæði komu upp varðandi salerni og rafmagn ...en kannski ekkert skrýtið þegar þessi mannfjöldi safnast saman á svæði sem aldrei hefur verið hugsað fyrir mannamót!

Afþreyingin var fjölbreytt og vel sótt. Menningarnefnd stóð fyrir Hafnardagadagskrá enda voru Hafnardagar felldir inn í dagskrá Unglingalandsmóts. Dorgveiðikeppni, listasmiðja, smíðavöllur, varðeldur, myndlistarsýning, ljóðagerð og sitthvað fleira gátu þeir sótt sem ekki voru í hefðbundnum íþróttakeppnum. Einnig var á vegum landsmótsins starfræktur Fjörkálfaklúbbur og Sprelligosaklúbbur fyrir þá sem ekki höfðu náð tilskildum aldri til að keppa á mótinu.  Á kvöldvökum léku tónlistarmenn og hljómsveitir bæði úr heimabyggð og lengra að komnir í risatjaldi og við varðeld.  Ég held að ekki sé á neinn hallað þó Ingó og Veðurguðirnir séu sérstaklega nefndir til sögunnar, enda með ólíkindum hvað þeir náðu upp magnaðri stemningu, bæði meðal unglinganna go foreldranna! Ingó er flottur Wink.

Íþróttakepnnin gekk í alla staði mjög vel. Skipulag og framkvæmd gengu upp í öllum greinum og keppendur sýndu prúðmannlega framgöngu og hinn sanna ungmennafélagsanda! Við Þorlákshafnarbúar áttum sigurvegara í nokkrum greinum og það er auðvitað alltaf skemmtilegt!

Sem sagt vel heppnað unglingalandsmót og ástæða til að þakka öllum sem að því komu. Ég var á unglingalandsmóti á Höfn í fyrra með fjölskylduna, hér heima þetta árið og það er ekki spurning hvað við gerum um næstu verlsunarmannahelgi. Við verðum á Grundarfirði á Unglingalandmóti UMFÍ. Það erum við öll sammála um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Himmalingur

Tvíeykið FARGAN frá Þorlákshöfn voru tær snilld. 15 ára guttar sem vöktu mikla athygli og þeir voru með fleiri frumsamin lög en Ingó! Ekki gleyma að segja frá þessum guttum sem eiga framtíðina fyrir sér í tónlist!!!!

Himmalingur, 8.8.2008 kl. 00:13

2 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Alveg rétt hjá þér, þeir voru flottir Elí og Arnór (+Gulli auðvitað!).

Sigþrúður Harðardóttir, 8.8.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Himmalingur

Ég er hjartanlega sammála þér að þessi helgi var frábær! Þorlákshafnarbúar og gestir til fyrirmyndar og frábært að sjá alla aldurshópa skemmta sér saman án áfengis!

Himmalingur, 8.8.2008 kl. 16:11

4 identicon

Þessi helgi var hreint út sagt ótrúleg og já, Elí og Arnór stálu pínulítið senunni á laugardagskvöldið, a.m.k. hjá mér ;)

Magnþóra (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband